Verulegur samdráttur var í gistinóttum hótela í mars. Samkvæmt bráðabirgðatölum voru 181.000 gistinætur á hótelum í mars samanborið við 382.000 gistinætur í mars 2019. Rúmanýting var um 25,3% samanborið við 56,8% í sama mánuði í fyrra. Miklar breytingar áttu sér stað í ferðaþjónustu í marsmánuði og má ætla að rúmanýting og fjöldi gistinátta hafi verið hærri í fyrri hluta mánaðar en lægri í þeim síðari.
Fyrsta mat á rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum í mars
Hagstofa Íslands gefur út mánaðarlegar tölur um gistinætur ferðamanna á hótelum að jafnaði 30 dögum eftir að mánuði lýkur. Þá eru skil frá hótelum vanalega um 90%. Athugað var hvort gögn sem skilað er strax eftir að mánuði lýkur séu nothæf fyrir fyrsta mat á nýtingu rúma og fjölda gistinátta á hótelum.
Um 20% hótela skila gögnum fyrstu dagana eftir lok hvers mánaðar. Þar sem ekki er um að ræða val af handahófi er þeim skipt upp eftir landsvæðum og gögnin vigtuð eftir þeim. Tölur um rúmanýtingu og fjölda gistinátta í þessum undirhópi hótela sem skila að jafnaði snemma er hægt að nota til að áætla lokaniðurstöður um rúmanýtingu og fjölda gistinátta á hótelum með vikmörkum.
Þessi aðferð gerir kleift að áætla fjölda og vikmörk gistinátta stuttu eftir lok mánaðar. Miðað við fyrstu skil fyrir marsmánuð má ætla að rúmanýting hafi verið um 25,3% +/- 0,22% og að fjöldi gistinátta á hótelum í mars hafi verið um 181.000 +/- 1000. Með hliðsjón af því má ætla að það hafi verið um 53% samdráttur á fjölda gistinátta frá mars 2019.
Miklar breytingar áttu sér stað í ferðamannaiðnaðinum í marsmánuði og má ætla að rúmanýting og fjöldi gistinátta hafi verið hærri í fyrri helmingi mánaðar en lægri í þeim síðari. Svona örar breytingar ýta undir þörfina fyrir tímanlegar hagtölur en gera einnig tölfræðilega vinnslu erfiðari. Þar sem umrætt líkan sem fræðast má um í lýsigögnum miðast við fyrri aðstæður þarf að taka spánni með þeim fyrirvara.