Ríkisstjórnin ákvað að taka upp hagsmunaskráningu fyrir ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands og aðstoðarmenn ráðherra á fundi sínum í morgun. Í nýlegri skýrslu GRECO er athygli íslenskra stjórnvalda vakin á því að ástæða kunni að vera til að láta hagsmunaskráningu ná til þessara starfsmanna með hliðsjón af eðli starfanna og nálægð við vald ráðherra.
Hér er um tilraunaverkefni að ræða og ekki er gert ráð fyrir að upplýsingar sem verða til við þessa skráningu verði birtar opinberlega. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að afstýra hagsmunaárekstrum og bjóða þeim ráðgjöf í vafatilvikum.
Forsætisráðuneytið mun taka saman skýrslu um verkefnið og birta eigi síðar en 30. mars 2019. Í henni verði ekki persónugreinanlegar upplýsingar.
Hagsmunaskráningarkerfi stjórnvalda er nú í heild til endurskoðunar, m.a. í ljósi ábendinga GRECO. Endurskoðunin lýtur að því hverjum skuli skylt að skrá hagsmuni, hvort gera eigi ráð fyrir upplýsingagjöf og ráðgjöf í trúnaði í vissum tilvikum og hversu víðfeðm skráningarskyldan eigi að vera. Síðastefnda atriðið varðar til dæmis skráningu skuldbindinga og hagsmuni maka og ólögráða barna viðkomandi.
Umræða