Þjóðinni líður eins og þjónustufulltrúum Hörpu, sem sögðu upp
Í fréttum RÚV í gærkvöldi útskýrði formaður samninganefndar ríkisins afstöðu ríkisvaldsins til kjaradeilu ljósmæðra með því að hafa yrði „heildarmyndina“ í huga og bætti svo við:
„Það væri ekki hægt að taka svona einn hóp út úr og semja með allt öðrum hætti við hann“.
Þetta er í samræmi við það sem talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað sagt.
Og þá vaknar þessi spurning?
Er Kjararáð ekki hluti af heildarmyndinni?
Eru æðstu embættismenn, þingmenn og ráðherrar ekki hluti af heildarmyndinni?
Hvers vegna var hægt að taka þá hópa út úr og ákveða þeim til handa margfallt meiri kjarabætur?
Kannski er hægt að segja að þjóðinni líði um þessar mundir eins og þeim 20 þjónustufulltrúum í Hörpu, sem sögðu upp störfum sínum í gærkvöldi eftir að staðfest var á starfsmannafundi, að þeir, launalægstu starfsmenn Hörpu, hefðu verið einu starfsmennirnir, sem tóku á sig launalækkun á þeim vettvangi, að því er fram kemur á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins í morgun.
Ljósmæðradeilan er að verða ríkisstjórninni lífshættuleg. Það er auðvitað ljóst að í baklandi VG hlýtur nú þegar að vera vaxandi urgur yfir því hvernig haldið er á þessari kjaradeilu af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Um leið og það bakland rís upp er leiknum lokið.
Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. ritstjóri Morgunblaðsins.