2.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 27. janúar 2023
Auglýsing

Ráðherra úthlutar 28 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 28 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki til 13 verkefna. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem nýtast heilbrigðisþjónustunni í kjölfar heimsfaraldurs. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Styrkirnir voru veittir á sameiginlegri ráðstefnu heilbrigðisráðuneytis og Landspítala 1. júní sl. þar sem fjallað var um þróun heilbrigðisþjónustu á tímum breytinga og þar voru verkefnin sem hlutu styrki kynnt.

Frestur til að sækja um styrki rann út 22. mars síðastliðinn og barst 21 umsókn um fjölbreytt verkefni. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingar. Hæstu styrkirnir nema 4,0 milljónum króna.

Þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis

Soroptimistaklúbbur Suðurlands, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fær 4 milljónir kr. í styrk til þess að þróa faglegan hluta meðferðarstarfs SIGURHÆÐA. Markmið verkefnisins er að bjóða konum búsettum á Suðurlandi sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi öruggan vettvang og aðstoð fagfólks til að vinna úr áföllum sem eiga rætur í ofbeldinu.

Stuðlað að auknu heilsulæsi

Landspítali, í samstarfi við Reykjalund og Háskólann á Akureyri, fær 4 milljóna króna styrk til námskeiðahalds fyrir heilbrigðisstarfsfólk um heilsulæsi og árangursríkar aðferðir í fræðslu og samskiptum til að auka heilsulæsi.

Smáforrit og aukin rafræn þjónusta í þágu sjúklinga

Af fleiri verkefnum sem hlutu styrki má nefna 3 m.kr. styrk til verkefnis Landspítala í samstarfi við Heilsugreind ehf. sem felst í fjarvöktun ónæmismeðferðar krabbameina. Með sérstöku smáforriti í síma sjúklings er unnt að vakta aukaverkanir. Sjúklingar senda einkennamat í gegnum forritið beint inn á krabbameinsdeild. Séu þær alvarlegar fær vaktstjóri deildarinnar sjálfvirk skilaboð og hefur þá samband við sjúklinginn, staðfestir einkenni og kemur af stað meðferðarferli. Markmiðið er að stytta viðbragðstíma sem getur skipt sköpum ef aukaverkanir eru alvarlegar.

Verkefni Landspítala í samvinnu við Heilsugreind ehf. um innleiðingu hugbúnaðar fyrir sjúklinga sem greinast með brjóstakrabbamein hlaut einnig 3 m.kr. styrk. Hugbúnaðinum er ætlað að bæta rekjanleika og vakta stöðu sjúklinga út frá skilgreindum biðtíma þannig að meðferðarúrræði séu veitt innan ásættanlegra tímaviðmiða. Sjúklingurinn fær jafnframt aðgang að upplýsingum um framvindu meðferðarinnar í gegnum hugbúnaðinn sem skapar jafnframt möguleika á gagnvirkum samskiptum sjúklings og heilbrigðisstarfsfólks í gegnum Heilsuveru.

Veittur er 3 milljóna króna styrkur til hugbúnaðarverkefnis sem miðar að bættum árangri við röðun lyfjagjafa á dagdeild fyrir krabbameinssjúklinga. Meginviðfangsefni verkefnisins er að aðlaga hinar nýju tegundir bestunar- og hermilíkana að lyfjagjöfum og þróa myndræna framsetningu upplýsinga og gagnvirkt notendaviðmót sem auðveldar vinnu og bætir árangur við röðun lyfjagjafa með aðstoð hinna nýju reiknilíkana. Nánar er fjallað um framangreind verkefni og önnur áhugaverð verkefni sem hlutu gæða- og nýsköpunarstyrki heilbrigðisráðherra að þessu sinni í meðfylgjandi skjali.