Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt dóm í máli gegn Tryggingastofnun þar sem deilt var um búsetuskerðingar á greiðslum skv. lögum um félagslega aðstoð. Dómurinn kveður upp úr um það að TR hafi skort lagastoð fyrir búsetu skerðingu félagslegra bóta frá upphafi.
Málið hefur verið í vinnslu í fjöldamörg ár, og snertir í raun fjölda manns. Deilt var um heimild TR til að skerða út frá búsetu, greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í næstum tuttugu ár hefur TR skert slíkar greiðslur í samræmi við búsetu viðkomandi í útlöndum, samhliða skerðingum á örorkulífeyri.
ÖBÍ hefur haldið því fram um áraraðir að búsetuskerðing greiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð væri ólögleg, og hvatt ráðherra málaflokksins sem og þingmenn, ítrekað til að fella niður þá reglugerð sem skerðingin byggist á. Enda er tilgangur laganna fyrst og fremst sá að tryggja öllum einstaklingum lágmarksframfærslu. Þegar greiðslur samkvæmt þessum lögum eru skertar vegna búsetu, er ljóst að sá tilgangur laganna næst ekki, og í raun gerir lítið annað en að framleiða fátækt fólk. Þess vegna var mikilvægt að láta reyna á þetta fyrir dómi.
TR hefur skert greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, á sama hátt og samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þær búsetuskerðingar hafa hins vegar verið samkvæmt reglugerðar ákvæði, en ekki lögum. Enda spyr dómurinn:
Hvar er lagastoð skerðingarinnar?
Dómurinn telur ákvæði laganna útfærslu á skyldu löggjafans samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er sett sú framfærsluskylda á hendur íslenska ríkinu að „öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. TR telur sér engu að síður skylt að skerða þá aðstoð sem stofnunin telur lífeyrisþegann þurfa til þess að ná lágmarksfjárhæð laganna, vegna búsetu hans í útlöndum á árum áður. Í 9. grein laganna sem hér er undir, eru ekki tilgreindar aðrar takmarkanir á greiðslu sérstakrar uppbótar en þær, að heildartekjur bótaþegans mega ekki ver hærri en það lágmarksframfærsluviðmið sem tilgreint er í ákvæðinu.
Verklag TR styðst við reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Þar segir að fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu hér á landi. Hér er þá mælt fyrir um skerðingu á bótarétti, sem ekki er orðuð í lögunum sjálfum.
„Telja verður að í 3. mgr. 15. gr reglugerðarinnar felist íþyngjandi inngrip í réttindi borgaranna.
Í fræðum og framkvæmd er við það miðað að því meira íþyngjandi sem ákvæði reglugerðar eru, þeim mun skýrari og ótvíræðari þurfi lagaheimildin sem hún byggist á að vera.“
Síðar segir í dóminum að „dómurinn telur að ekki þurfi að orðlengja um það að í 5. mgr. 9. gr. framseldi löggjafinn ráðherra ekki vald til þess að setja reglugerð þar sem mælt yrði fyrir um að búsetuhlutfall lífeyrisþega hér á landi, eins og það er skilgreint í lögum um almannatryggingar, legði grunn að skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, sem stefndi hefur þó samkvæmt 4. mgr. metið að sé honum nauðsynleg sér til framfærslu.“
Áralöng framkvæmd hafi enga þýðingu
Að mati dómsins getur það ekki haft neina þýðingu þótt TR hafi skert bætur félagslegrar aðstoðar á grundvelli búsetuhlutfalls í næstum tuttugu ár.
„Íþyngjandi inngrip í rétt borgaranna sem skortir lagastoð geta ekki fengið réttarheimildargildi sem venja þrátt fyrir langvarandi framkvæmd“
Dómurinn var kveðinn upp þann 19. júní s.l. og hefur TR 4 vikur frá þeim degi til að ákveða hvort honum verði áfrýjað.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, segir dóminn mjög mikilvægan. Dómurinn tryggi öllum lágmarks framfærslu og gagnast mest þeim einstaklingum sem hafa verið fastir í fátækt vegna búsetuskerðinga, og í raun ætlað að draga lífið fram á smáaurum.
„Ég skora á ríkið að láta nú staðar numið í baráttu sinni fyrir að viðhalda smánarlegri fátækt í landinu og una þessum dóm. Það er mál að linni“