Óþarfi að ræða strandveiðifrumvarpið frekar
Önnur umræða um strandveiðifrumvarp atvinnuvegaráðherra var fyrsta mál á dagskrá Alþingis í morgun en frumvarpið á að tryggja 48 daga til strandveiða. „Við fylgjumst mjög vel með því og vorum einmitt að hlusta á það núna í morgun. Ég á nú ekki von á öðru en að frumvarpið fái greiða leið í gegnum þingið,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í viðtali við ríkisútvarpið.
Andstaða og stór orð á Alþingi komu mjög á óvart
Andstaðan sem birtist við fyrstu umræðu frumvarpsins kom mjög á óvart og stór orð sem þar voru látin falla. „Það kemur okkur á óvart, mjög á óvart. Ekki síst þegar mikill meirihluti þjóðarinnar, eða 72,3%, vilja og eru meðmælt því að auka veiðiheimildir til strandveiða. Þá þurfi, eins og í fyrstu umræðu, 16 klukkustunda umræðu um strandveiðarnar. Með því þá tel ég að málið hafi nú verið nokkuð útrætt.“ Sagði Örn Pálsson í viðtalinu.