Breyta þarf kvótakerfinu til að tryggja réttláta skiptingu sjávarauðlindarinnar og jafna aðgengi smærri útgerða að fiskimiðum. Þetta segir Sigurjóns Þórðarson þingmaður Flokks fólksins í viðtali við Pétur Gunnlaugsson í Síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu. Hlusta má á þáttinn í spilaranunum hér að neðan.
Stórútgerðin hefur of mikil ítök
Hann telur að stórútgerðin hafi náð of miklum yfirráðum yfir fiskimiðunum og að það hafi leitt til samþjöppunar í greininni sem komi niður á minni útgerðum og byggðarlögum sem áður byggðu afkomu sína á fjölbreyttri sjávarútvegsstarfsemi. Hann segir að kerfið hafi þróast á þann veg að örfáir aðilar hafi gríðarleg völd yfir auðlindinni sem eigi að vera sameign þjóðarinnar
Strandveiðar og smærri útgerðir
Sigurjón segir að nauðsynlegt sé að tryggja smærri útgerðum meiri hlutdeild í sjávarauðlindinni og að strandveiðar séu mikilvægur þáttur í því að tryggja fjölbreytni og byggðafestu. Hann telur að það hafi verið gert of lítið fyrir strandveiðimenn og að stórútgerðin hafi haft óeðlileg áhrif á stefnumótun stjórnvalda í sjávarútvegsmálum. Hann telur að fyrsti liður í umbótum sé að tryggja frjálsar handfæraveiðar og opna möguleika fyrir minni báta að stunda veiðar án þess að þurfa að kaupa kvóta af stærri útgerðum
Allur fiskur á opinn markað
Þá segir Sigurjón að stórútgerðin hafi einnig áhrif á verðmyndun í sjávarútvegi og að það þurfi að tryggja að aflinn fari á opinn markað þar sem allir geti boðið í hann við sömu aðstæður. Hann bendir á að núverandi kerfi leiði til þess að stórútgerðin geti stjórnað því hvernig verðmyndun á fiski fer fram og að minni útgerðir og fiskvinnslur eigi erfitt með að tryggja sér hráefni á sanngjörnu verði. Hann telur að það sé nauðsynlegt að koma á skýrum reglum um að allur afli fari á markað til að tryggja eðlilega samkeppni
Almenningshagsmunir í sjávarútvegi
Núverandi kerfi vinnur að mati Sigurjóns gegn hagsmunum almennings og það þurfi að tryggja að þjóðin njóti sanngjarns hlutfalls af þeim verðmætum sem skapast í greininni. Hann bendir á að ríkið ætti að hafa meira frumkvæði að því að tryggja réttláta skiptingu arðsins af sjávarútveginum og að það sé óeðlilegt að stór hluti auðsins renni til fárra aðila á meðan almenningur greiðir hátt verð fyrir fisk á innanlandsmarkaði. Því sé nauðsynlegt að allur afli fari á opinn markað.
Breyta þarf kvótakerfinu með lögum
Hann segir að það sé kominn tími til að fara í heildarendurskoðun á kvótakerfinu og að tryggja þurfi með lögum að auðlindin nýtist öllum landsmönnum en ekki aðeins fáum stórfyrirtækjum. Hann telur að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar og að úthlutun kvóta eigi að miðast við það markmið að byggja upp sterkan sjávarútveg þar sem fjölbreytni og atvinnusköpun sé í forgrunni. Hann telur að mikilvægasta skrefið í þá átt sé að auka aðgengi minni útgerða að auðlindinni og tryggja að fiskverð myndist á markaði í stað þess að vera stýrt af fáum stórum aðilum í greininni.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér