Lögreglan á Suðurlandi rannsakar þjófa sem fara á milli bæja
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú þjófnaðarmál þar sem skipulega virðist gengið til verks. Aðilar á hvítum smábíl hafa farið milli bæja í Landbroti í Skaftárhreppi og bankað upp á. Ef einhver er heima og kemur til dyra segjast þeir vera að leita að gistingu en sé enginn heima við fara þeir inn og láta greipar sópa. Aðallega er stolið peningum og skartgripum.
Fólk sem kann að búa yfir upplýsingum sem gætu komið lögreglu á spor þessara aðila, hvort sem er lýsing á aðilum, bílnúmer eða hluti úr því, er beðið um að senda lögreglu skilaboð hér á síðunni eða setja sig í samband við lögreglu gegnum neyðarnúmerið 112.
Annars er búin að vera annasöm löng helgi hjá lögreglunni. Frá því á fimmtudagsmorgun 02. ágúst 2018 til mánudagskvölds 06. ágústs 2018 voru skráð hjá Lögreglunni á Suðurlandi 11 umferðaróhöpp og eitt alvarlegt slys. Í eftirlit lögreglu á þessum tíma voru 29 ökumenn stöðvaðir vegna hraðaksturs, sá sem hraðast ók var á 142 km/klst.
Fimm ökumenn voru með útrunnin ökuréttindi og fjórir sviptir ökuréttindum. Sextán voru teknir fyrir ölvun við akstur og tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Eitt mál kom upp þar sem aðili var með ólögleg lyf og fjögur fíkniefnamál komu upp.
Eitt þessara fíkniefnamála tengist sölu fíkniefna á Selfossi og fannst umtalsvert magn fíkniefna í söluumbúðum, við húsleit lögreglu sem naut liðsinnis fíkniefnaleitarhundsins Vinkils og umsjónarmanns hans. Þar sannaðist mikilvægi góðra fíkniefnaleitarhunda enn og aftur.