Myndin Hvítur, hvítur dagur, var frumsýnd í vikunni og sáu blaðamenn Fréttatímans þessa vel leiknu og mögnuðu mynd við það tækifæri
Ingimundur (Ingvar E. Sigurðsson) er lögreglustjóri sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Fyrri part myndarinnar er áhorfandanum m.a. kynntar aðstæður Ingimundar og það umhverfi sem að hann býr í litlum bæ út á landi, þar sem að allir þekkja alla. Það er eftirtektarvert hversu mikið er af góðum myndatökum af náttúru landsins og landslagið fær að njóta sín vel í mörgum atriðum myndarinnar.
Í sorginni einbeitir Ingimundur sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.
Þá nær leikstjórinn að túlka vel þá stemmingu sem þeir þekkja vel sem hafa búið í litlu byggðalagi en sú stemming er ansi frábrugðin því sem að við þekkjum úr yfirborðslegum amerískum Hollywood myndum. Ída Mekkín Hlynsdóttir leikur dóttur Ingimundar og skilar hlutverki sínu frábærlega vel og fær allar 5 stjörnurnar fyrir.
Ingvar E. Sigurðsson skilar túlkun sinni á Ingimundi á stórkostlegan hátt, en Ingimundur á í miklum sálrænum erfiðleikum sem að hann hefur byrgt inni í langan tíma á bak við grímu. En sú gríma springur með miklum látum og sagan tekur óvænta stefnu.
Ingvar Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir fara með aðalhlutverkin og eiga bæði stórkostlegan leik í þessari mögnuðu mynd!
Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur hefur verið seld til yfir 30 landa í Evrópu, Asíu, Eyjaálfu og Norður-Ameríku. Þar á meðal eru Ástralía, Nýja-Sjáland, Kína, Bretland, Frakkland, Bandaríkin og Kanada. Kvikmyndin verður frumsýnd í Norður-Ameríku á kvikmyndahátíðinni í Toronto hinn 9. september.
Leikstjórinn Hlynur Pálmason færir okkur hér aðra kvikmynd sína í fullri lengd, Hvítur, hvítur dagur, en myndin var heimsfrumsýnd á gagnrýnendavikunni í Cannes 2019 þar sem Ingvar E. Sigurðsson hlaut Rising Star-verðlaunin, sem veitt eru af Louis Roederer Foundation.
Myndin hefur nú þegar hlotið einróma lof gagnrýnenda og sópað til sín fleiri verðlaunum – ásamt því að vera komin í forval fyrir Evrópsku Kvikmyndaverðlaunin 2019 og einnig hefur hún hlotið tilnefningu sem framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.
Hlynur er ekki alls ókunnugur verðlaunum og lofi en fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Vetrarbræður (Vinterbrødre) (2017), átti mikilli velgengni að fagna og hlaut yfir 30 alþjóðleg verðlaun – en sú mynd var einnig tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.