Vaka hf. björgunarfélag, sem hefur með höndum margvíslega bifreiðaþjónustu og endurvinnslu bifreiða m.a. og er til húsa að Héðinsgötu 1-3 í Reykjavík, var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 2024
Í innköllun var skorað á alla þá sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra búsins, Unni Lilju Hermannsdóttur lögmanni.
Athygli vakti að Vaka hélt áfram óbreyttri starfsemi þrátt fyrir gjaldþrotaúrskurðinn. „Það er mat mitt sem skiptastjóra að það sé til hagsbóta fyrir þrotabúið og kröfuhafa þess. Við höfum unnið að því frá gjaldþrotinu að tryggja áframhaldandi rekstur og þjónustu fyrir viðskiptavini félagsins,“ sagði Unnur Lilja.
Í Lögbirtingablaðinu kemur fram að:
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 27. nóvember 2024 hafi neðangreint bú tekið til gjaldþrotaskipta. Sama dag var undirritaður lögmaður skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Skiptum á búinu var lokið 17. september 2025. Skiptum búsins lauk samkvæmt 2. mgr. 154. gr. laga nr. 21/1991 með því að allar lýstar kröfur, alls að fjárhæð 2.502.489.929 kr., voru afturkallaðar eða þær fallnar niður.
Nafn bús: Lýstar kröfur:
Vaka hf., björgunarfélag, kt. 670269-5589, Héðinsgötu 1-3, Reykjavík
Allar lýstar kröfur, alls að fjárhæð 2.502.489.929 kr., voru afturkallaðar eða þær fallnar niður.
Unnur L. Hermannsdóttir skiptastjóri.
Vaka aftur undir yfirráðum hluthafa – Yfirlýsing skiptastjóra
,,Gjaldþrotaskiptum á þb. Vöku hf. björgunarfélags er nú lokið en Unnur Lilja Hermannsdóttir lögmaður var skipuð skiptastjóri þrotabúsins í nóvember sl.
Félagið var í rekstri áfram eftir gjaldþrotaúrskurðinn undir stjórn skiptastjóra. Hluthafar hafa nú endurheimt félagið úr gjaldþrotameðferð með greiðslum til kröfuhafa á grundvelli frjálsra samninga. Er hluthöfum óskað velfarnaðar með áframhaldandi starfsemi Vöku hf., björgunarfélags.“