Jólavenjur Íslendinga
Ýmsir þættir sem snúa að jólahaldi landsmanna voru kannaðir í Þjóðarpúlsi Gallup og niðurstöðurnar bornar saman við fyrri ár, en könnunin hefur verið gerð síðan árið 2010.
Jólaskraut
Um 92% landsmanna eru með jólaseríur eða annað jólaskraut innandyra og sjö af hverjum tíu eru með slíkt utandyra.
Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að vera með skraut innandyra, og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru líklegri til þess en þeir sem hafa lægri tekjur. Fólk er líklegra til að vera með skraut utandyra eftir því sem það er eldra og eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur.
Jólatré
Flestir eru með jólatré, eða 85%. Nær sex af hverjum tíu eru með gervitré og 28% með lifandi tré. Árið 2010 voru fjórir af hverjum tíu með lifandi tré en þeim hefur fækkað aðeins síðan þá, en á þeim tíma var rétt tæplega helmingur með gervitré.
Fólk með háskólapróf er líklegra til að vera með lifandi tré en þeir sem hafa minni menntun að baki, og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur líklegri til þess en þeir sem hafa lægri tekjur. Íbúar
landsbyggðarinnar eru líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að vera með gervitré, og þeir sem hafa minni menntun að baki líklegri en þeir sem hafa lokið háskólaprófi.
Jólamatur
Hátt í þrír af hverjum fjórum segjast sjá um, eða taka þátt í, að elda jólamatinn á aðfangadag. Fólk milli fertugs og fimmtugs er líklegast til að koma að matseldinni, en fólk yngra en þrítugt ólíklegast.
Góðgerðir
Tveir af hverjum þremur styrkja góðgerðarmálefni fyrir eða um jólin. Þetta er heldur lægra hlutfall en stundum áður, en á árunum 2010-2016 var það á bilinu 70-76%. Fólk er líklegra til að styrkja
góðgerðarmálefni eftir því sem það er eldra.
Aðventukrans/aðventuljós
Sex af hverjum tíu eru með aðventukrans með fjórum kertum á heimilinu um jólin og um 45% eru með aðventuljós með sjö ljósum. Árið 2010 settu 62% aðventuljós út í glugga en með auknu úrvali jólaljósa virðist sá siður smám saman á undanhaldi.
Konur eru líklegri en karlar til að vera með aðventukrans, og fólk með lægstar fjölskyldutekjur er ólíklegast til þess. Eldra fólk er líklegra en yngra til að vera með aðventuljós, íbúar landsbyggðarinnar frekar en höfuðborgarsvæðisins og fólk með minni menntun frekar en þeir sem hafa lokið háskólaprófi.
Látnir ástvinir
Hátt í sex af hverjum tíu fara í kirkjugarð að vitja leiðis yfir jólin. Fólk er líklegra til þess eftir því sem það er eldra.
Bakstur
Um 57% baka smákökur fyrir jólin. Árið 2010 var hlutfallið 68% en það hefur lækkað aðeins síðan þá. Konur eru líklegri til að baka smákökur en karlar, fólk er líklegra til þess eftir því sem það er yngra, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en íbúar höfuðborgarsvæðisins.
Jólakort
Um 53% senda rafrænt jólakort eða rafræna jólakveðju og um 23% senda jólakort með hefðbundnum pósti. Árið 2010 sendu fjórir af hverjum tíu rafræna jólakveðju en þeim hefur fjölgað aðeins síðan þá.
Það ár sendu hins vegar nær þrír af hverjum fjórum jólakort með hefðbundnum pósti svo þeim hefur fækkað mikið síðan þá. Fólk er líklegra til að senda jólakveðju, rafræna eða með pósti, eftir því sem það er eldra, og þeir sem eru yfir sextugu eru mun líklegri til þess að senda jólakort með pósti en þeir sem yngri eru. Íbúar landsbyggðarinnar eru einnig líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að senda jólakveðju, rafræna eða með pósti. Konur senda loks frekar rafræna kveðju en karlar, og fólk með minni menntun frekar en þeir sem hafa lokið háskólanámi.
Hlaðborð/tónleikar/kirkjur
Um 52% fullorðinna Íslendinga fara á jólahlaðborð fyrir eða um jólin, nær 45% fara á tónleika og hátt í fjórðungur fer í kirkju. Árið 2010 og árin þar á eftir fór um þriðjungur í kirkju fyrir eða um jólin en kirkjusókn um jól hefur aðeins minnkað síðan þá.
Fólk á aldrinum 30-60 ára er líklegra til að fara á jólahlaðborð en þeir sem eru yngri eða eldri, og fólk er að jafnaði líklegra til að fara eftir því sem það hefur hærri fjölskyldutekjur. Fólk milli þrítugs og fertugs er líklegra til að fara á tónleika um jólin en þeir sem yngri eða eldri eru, og fólk með hæstu fjölskyldutekjurnar er líklegra til að fara en þeir sem hafa lægri tekjur. Fólk er líklegra til að fara í kirkju eftir því sem það er eldra, og fólk með lægri fjölskyldutekjur er líklegra til þess en fólk með hærri tekjur.
Skata
Hátt í fjórir af hverjum tíu fullorðnum landsmönnum borða skötu fyrir jólin. Karlar eru líklegri en konur til að borða skötu, fólk er líklegra til þess eftir því sem það er eldra, og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til þess en höfuðborgarbúar.
Piparkökumálun
Næstum þrír af hverjum tíu fullorðnum Íslendingum mála piparkökur fyrir jólin. Konur eru líklegri til þess en karlar, og fólk undir fimmtugu líklegra en þeir sem eldri eru. Þeir sem hafa meiri menntun og hærri fjölskyldutekjur eru einnig líklegri til þess en þeir sem hafa minni menntun og lægri fjölskyldutekjur.
Laufabrauð
Nær 27% skera út og/eða steikja laufabrauð fyrir jólin.
Jólaföndur
Fjórðungur fullorðinna föndrar fyrir eða um jólin. Konur föndra frekar en karlar, og fólk undir fimmtugu frekar en þeir sem eldri eru.
Jólaball
Hátt í fjórðungur fullorðinna landsmanna fer á jólaball, þ.e. jólatrésskemmtun fyrir börn, aðallega fólk milli þrítugs og fertugs og svo fólk milli fertugs og fimmtugs, en fólk á öðrum aldri er ólíklegra til þess. Þeir sem hafa meiri menntun og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru líklegri til að fara á jólaball en þeir sem hafa minni menntun að baki og þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur.
Konfekt
Tæplega 8% búa til konfekt fyrir jólin og eru konur líklegri til þess en karlar. Árið 2010 gerðu nær 14% konfekt fyrir jólin svo þeim sem gera konfekt hefur fækkað síðan þá.
Spurt var:
Vinsamlegast merktu við þau atriði sem eiga við um þig fyrir eða um jólin í ár. Atriðin birtust í tilviljunarkenndri röð og má sjá þau á myndinni á fyrstu síðunni. Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 20. desember 2019 – 3. janúar 2020. Þátttökuhlutfall var 52,4%, úrtaksstærð 1.605 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.