8.8 C
Reykjavik
Sunnudagur - 5. febrúar 2023
Auglýsing

Fjórðungur á unglinga- og framhaldsskólastigi er með eða hefur átt falskan aðgang að samfélagsmiðlum

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Nálægt sjö af hverjum tíu þátttakendum á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast hafa samþykkt vinabeiðni á samfélagsmiðlum frá einhverjum sem þeir þekktu ekki áður og um fjórðungur barna og ungmenna á sama aldri er með eða hefur átt falskan aðgang að samfélagsmiðlumÞetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um öryggi á netinu sem gefin er út í dag í tilefni af Alþjóðlega netöryggisdeginum.
Skýrslan er þriðji hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára . Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Næstum tvöfalt fleiri stelpur en strákar hafa deilt lykilorðum sínum með vinum

Um fjórðungur ungmenna á unglinga- og framhaldsskólastigi þekkir lykilorð nokkurra vina sinna að samfélagsmiðlum og í 4.-7. bekk hafa 1 af hverjum 10 börnum sagt vinum lykilorð sitt. Grunnskólanemar gefa helst þá ástæðu fyrir deilingu á lykilorði, að það sé til öryggis ef þeir skyldu gleyma því. Meðal framhaldsskólanema er helsta ástæðan sú að þeir hafi þurft að upplýsa vini sína um lykilorð þegar þeir þurftu hjálp við eitthvað. Í öllum aldurshópum (9-18 ára) er algengara að stelpur en strákar viti lykilorð einhverra vina sinna að samfélagsmiðlum og heilt á litið eru næstum tvöfalt fleiri stelpur en strákar sem deila lykilorðum sínum með vinum.

Stelpur líklegri til að setja aðeins inn færslur sem vinir þeirra eða fylgjendur geta séð

Allir þátttakendur voru spurðir hverjir gætu séð færslur þeirra á Snapchat, TikTok og Instagram. Á öllum þremur samfélagsmiðlunum eru stelpur líklegri til að setja aðeins inn færslur sem vinir þeirra eða fylgjendur geta séð. Munur á milli stráka og stelpna er mestur á TikTok, en mun fleiri stelpur setja inn færslur sem aðeins vinir geta séð. Meðal allra aldurshópa sem nota Snapchat er algengast (67–70%) að aðeins vinir eða fylgjendur geti séð það sem birt er. Aðeins 4-7% setja inn færslur á Snapchat sem allir geta séð.

Sjö af hverjum tíu á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast hafa samþykkt vinabeiðni frá ókunnugum

Hærra hlutfall stelpna en stráka í öllum aldurshópum segjast aðeins samþykkja vinabeiðnir frá þeim sem þær þekkja og ef foreldrar þeirra telja það óhætt. Algengara er meðal stráka í öllum aldurshópum að samþykkja allar vinabeiðnir á samfélags- miðlum. Þessi kynjamunur er mestur meðal stráka í 8.-10. bekk, þ.e. 17% stráka borið saman við 10% stelpna. Um þrír af hverjum tíu í 4.-7. bekk hafa samþykkt vinabeiðni frá ókunnugum en tæpur helmingur (48%) segist aldrei hafa samþykkt einhvern sem þau þekktu ekki. Nálægt sjö af hverjum tíu þátttakendum á unglinga- og framhaldsskólastigi segjast hafa samþykkt vinabeiðni á samfélagsmiðlum frá einhverjum sem þeir þekktu ekki áður.

Fleiri stelpur en strákar hafa þurft að blokka einhvern á samfélagsmiðlum

Rúmur helmingur barna í 4.-7. hefur blokkað einhvern á samfélagsmiðlunum en á unglinga- og framhaldsskólastigi er hlutfallið um 80%. Í öllum aldurshópum hafa fleiri stelpur en strákar þurft að blokka einhvern á samfélagsmiðlum.

Flestir foreldrar ungmenna á framhaldsskólaaldri athuga aldrei hvað þau gera á netinu

Börn í 4.-7. bekk segja algengast að foreldrar þeirra athugi hve lengi þau hafi verið á netinu (44%) og hvaða öppum þau hafa hlaðið niður (44%). Foreldrar barna á í 8.-10. bekk hafa helst eftirlit með því hversu lengi börn þeirra hafa verið á netinu (30%) og hvaða myndum eða myndböndum þau deila (29%). Meðal ungmenna í framhaldsskóla er algengast að foreldrar athugi hvaða myndum eða myndböndum sé deilt (23%) og hve löngum tíma þau eyði á netinu (17%). Flestir foreldrar framhaldsskólanema athuga aldrei hvað þau gera á netinu (71-88%).

Fjórðungur á unglinga- og framhaldsskólastigi er með eða hefur átt falskan aðgang að semfélagsmiðlum

Rúmur helmingur þátttakenda á unglinga- og framhaldsskólastigi hefur aldrei verið með falskan eða nafnlausan aðgang á samfélagsmiðlum. Nemendur í 4. – 10. bekk fengu ekki þessa spurningu. Hlutfall þátttakenda sem annaðhvort er með eða hefur haft nafnlausan eða falskan aðgang að samfélagsmiðlum eykst lítillega með aldri úr 37% meðal barna í 8.-10. bekk í 40 % meðal framhaldsskólanema.