,,Það er mikið gert úr fyrirvörum við orkupakka 3 af stjórnarmeirihlutanum og stjórnaraðstoðinni“
Það er magnað að fylgjast með upphafi umræðu um Orkupakka 3. Utanríkisráðherra (sem gjarnan er í útlöndum) setur út á að helsti andstæðingur málsins sé í útlöndum en ekki við umræðuna.
Þorsteinn Sæmundsson bendir á að ég sé þar á vegum Alþingis ásamt fleiri þingmönnum og öflugir varamenn séu til varnar á meðan. Þá segir Guðlaugur Þór Þórðarson að hann hafi samið við forystumenn Miðflokksins um fundartímann. Um hvað samdi hann? -Að umræðunni yrði flýtt svo hann, ráðherrann, fengi að yfirgefa umræðuna til að fara til útlanda!
Það er mikið gert úr fyrirvörum við orkupakka 3 af stjórnarmeirihlutanum og stjórnaraðstoðinni. Fyrirvarinn byggist víst á því að hætturnar af O3 raungerist ekki nema lagður verði sæstrengur og Alþingi eigi að hafa aðkomu að hugsanlegri lagningu sæstrengs. Á meðan hann sé ekki lagður verði fjandinn ekki laus. -Hljómar eins og vörn gegn sæstreng.
Spurning: Hvers vegna eru þá helstu stuðningsmenn sæstrengs helstu stuðningsmenn O3?
Getur verið að pólitískir fyrirvarar í þingsályktunartillögu skipti engu máli. Ekki frekar en fyrirvararnir átta sem norska þingið setti og skiptu nákvæmlega engu máli.