Fjórði hver hvalur skotinn oftar en einu sinni
Aðeins 60 prósent þeirra hvala sem drepnir voru við Ísland á síðasta ári drápust samstundist. 36 hvalir voru skotnir oftar en einu sinni. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klukkutíma án árangurs.
Hvalveiðar heyra fortíðinni til og þessi skýrsla ætti að vera skýr skilaboð til stjórnvalda um að stöðva þær strax.
Stór hluti heimsbyggðarinnar lítur á hvalveiðar sem dýraníð. Á því erum við Íslendingar engin undantekning. Skoðanakönnun frá því í fyrra gefur til kynna að um 65% Íslendinga telji hvalveiðar hafa neikvæð áhrif á orðspor landsins.
Hvalveiðar eru bæði ósiðaðar og frumstæðar. Við vitum það öll. Dýrin þjást í margar mínútur eftir sprengiskutla, stundum marga í senn. Ávinningurinn af veiðunum er óljós, ef einhver – en orðsporsáhættan er óumdeild. Hvalir búa auk alls þessa yfir þeim einstaka eiginleika að binda kolefni sem nemur 1500 trjám á líftíma sínum.
Matvælaráðherra segist hins vegar ætla að ,,skoða málið” og að ekki sé hægt að afturkalla leyfið. Það þýðir að tugir eða hundruðir hvala muni hljóta kvalafullan dauðdaga í sumar og alþjóðlegt orðspor okkar verður dregið í gegnum svaðið. Þetta þarf ekki að vera svona.
Umræða