Í gærdag og fram á kvöld fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu inn á 24 veitinga- og skemmtistaði til að fylgja eftir reglum um sóttvarnir, fjöldatakmörkun og 2 metra reglunni. Af þessum 24 veitinga- og skemmtistöðum voru 15 staðir sem ekki voru að framfylgja sóttvarnarreglum þannig að viðunandi væri. Sér í lagi var fjöldi gesta á stöðunum oft slíkur að alls ekki var unnt að tryggja tveggja metra bil milli manna og sum staðar var ekki þverfótað vegna fjöldi fólks, bæði inni á stöðunum og utan við þá. Eigendum og forsvarsmönnum var veitt tiltal eftir atvikum og þeim leiðbeint um hvað betur mætti fara. Lögreglan lítur þetta alvarlegum augum í ljósi aðstæðna og því er til skoðunar að grípa til hertra aðgerða, þar með talið beitingu sekta, til að sporna gegn brotum á sóttvarnarreglum.
Tveimur veitingastöðum var lokað, þar sem leyfi voru ekki í lagi.
Samtals voru 90 mál eru skráð í dagbók lögreglu milli 17:00 – 05:00 og 7 aðilar vistaðir í fangageymslu. Mikið var um tilkynningar um hávaða frá heimilum.
Kona í annarlegu ástandi var handtekin grunuð um þjófnað / hnupl úr verslun í miðbænum. Konan var búin að bera vörur upp á aðra hæð verslunarinnar og henda þar út um glugga fatnaði að verðmæti 4 – 500 000 kr. sem hún ætlaði síðan að nálgast. Konan er einnig grunuð um vörslu fíkniefna. Konan var vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Ölvaður maður handtekinn í byggingu á einkalóð í Austurbæ. Maðurinn vildi ekki segja til nafns og yfirgefa svæði og var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Ofurölvi maður var handtekinn við Ingólfstorg. Maðurinn var búinn að vera að ógna fólki með stól og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Bifreið var stöðvuð í Hafnarfirði, og var ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Áður hafði verið tilkynnt um bifreiðina vegna gruns um fíkniefnasölu. Þá var bifreið stöðvuð í Hafnarfirði, þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og bifreiðin reyndist vera á 2 nagladekkjum.
Afskipti höfð af ökumanni bifreiðar í Hafnarfirði. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og upphófst eftirför. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, fyrirmælum lögreglu var ekki hlýtt og reyndi að hlaupa frá vettvangi.
Afskipti voru höfð af manni í Kópavogi, vegna brots á lögreglusamþykkt Kópavogs. Maðurinn var áberandi ölvaður og var að kasta af sér þvagi á almannafæri. Maðurinn viðurkenndi brotið og baðst afsökunar á þessari háttsemi. Um svipað leiti var bifreið stöðvuð á Vesturlandsvegi. Ökumaðurinn er grunaður um of hraðan akstur 130 / 80 km/klst. Ökumaðurinn neitaði brotinu.