Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti í dag tvíhliða fund með utanríkisráðherra Palestínu, Dr. Varsen Aghabekian, sem er stödd hér á landi í boði utanríkisráðherra. Til umræðu var staðan í Palestínu og ekki síst fréttir um að samningar hefðu tekist um vopnahlé á Gaza, en auk þess tíðindi af nýlegum viðurkenningum fjölda áhrifaríkja á sjálfstæðu palestínsku ríki.
Utanríkisráðherrarnir tveir hittust á ráðstefnu í Sameinuðu þjóðunum í New York í júlí um tveggja ríkja lausnina svonefndu og bauð Þorgerður Dr. Aghabekian við það tækifæri til Íslands.
Dagskrá palestínska utanríkisráðherrans í heimsókn hennar á Íslandi er þétt en Dr. Aghabekian átti einnig hádegisverðarfund í forsætisráðuneytinu í dag í boði Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og sótti Þorgerður Katrín hann einnig. Eftir það heilsaði Dr. Aghabekian, sem er fyrsta konan í embætti utanríkisráðherra í Palestínu, upp á forseta Alþingis, Þórunni Sveinbjarnardóttur, og hún átti síðan fund með utanríkismálanefnd Alþingis. Dr. Aghabekian mun á morgun, föstudag, ávarpa friðarráðstefnuna Imagine Forum sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið og Höfði friðarsetur standa að, auk þess sem hún mun sækja forseta Íslands heim á Bessastöðum. Þá kynnir ráðherrann sér starfsemi stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Henni gafst enn fremur tækifæri til að skoða sig um á Þingvöllum í gær.
„Það er mér ákaflega mikils virði að hafa getað boðið Dr. Aghabekian hingað til lands til að sýna í verki stuðning okkar við farsæla lausn á því hörmungarástandi sem nú geisar í Palestínu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Ekki síst er ánægjulegt að taka á móti henni á þessum degi sem veitir okkur von fyrir fólkið í Palestínu og um frið á svæðinu. Við ræddum auðvitað tíðindi dagsins, að náðst hafi samkomulag um vopnahlé á Gaza, en einnig stuðning við tveggja ríkja lausnina og hvernig Ísland getur mögulega lagt hönd á plóg vegna enduruppbyggingar Gaza sem og látið gott af sér leiða á Vesturbakkanum. Það gladdi mig að heyra ráðherrann segja í upphafi fundar í morgun að Ísland ætti sérstakan stað í hjarta palestínsku þjóðarinnar fyrir að hafa verið meðal fyrstu ríkja til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Við stöndum með sjálfstæðri Palestínu og munum halda áfram að þrýsta á aðrar þjóðir að gera það sama.”