Viljayfirlýsing um byggingu björgunarmiðstöðvar á Patreksfirði var undirrituð í dag í ráðhúsi Vesturbyggðar. Þar verði undir einu þaki búnaður og aðstaða fyrir slökkvilið Vesturbyggðar, Björgunarsveitina Blakk og sjúkrabíla Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þá verði þar stjórnstöð fyrir neyðaraðila. Gert er ráð fyrir að húsið verði um 1000 fm og að hluta á tveimur hæðum.
Viljayfirlýsingin er undirrituð með fyrirvara um fjármögnun allra aðila. Undirbúningsnefnd verður stofnuð í kjölfarið sem vinnur málið áfram, og mun meðal annars finna heppilega staðsetningu fyrir húsið.
„Það er búið að vera draumur lengi að komast í hentugra húsnæði og vera saman með aðstöðu allra þessara aðila,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson slökkviliðsstjóri.
„Þetta er afar ánægjulegt skref í þá átt að bæta aðstöðu viðbragðsaðila,“ segir Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar.
„Þetta er stórt skref inn í framtíðina að vera ekki lengur í þremur óhentugum húsum,“ segir Siggeir Guðnason formaður Björgunarsveitarinnar Blakks. „Við stefnum að því að tvöfalda rýmið sem við höfum til umráða, fyrir mikinn og stækkandi flota björgunarbúnaðar. Auk þess gerum ráð fyrir að flytja með okkur klifurvegg.“
„Við erum fámennt samfélag þar sem allir eru með mörg hlutverk. Þess vegna er sérstaklega verðmætt að setja allt undir eitt þak og auðvelda þannig samvinnuna, bæði dags daglega og í aðgerðum,“ segir Siggeir, sem einnig er sjúkraflutningamaður hjá heilbrigðisstofnuninni.
„Á næstu vikum verður opnuð hönnunarsamkeppni fyrir nýtt hjúkrunarheimili á Patreksfirði. Það er því útlit fyrir að aðbúnaður starfsfólks og skjólstæðinga okkar taki stórstígum framförum á næstu árum,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.