Stefnt er á að bannið taki gildi fyrir lok ársins
Yfirvöld í Póllandi stefna að því að banna almenna sölu og dreifingu á nikótínpúðum þar í landi. Izabela Leszczyna, heilbrigðisráðherra Póllands, tilkynnti um áformin á föstudag. Ráðuneyti hennar vinnur að frumvarpi um bannið sem vonast er til að verði tilbúið fyrir árslok. Fjallað er um málið á vef ríkisútvarpsins.
Bannið á að koma til móts við vaxandi áhyggjur af neikvæðum heilsufarsáhrifum nikótínpúða. Leszczyna sagði það áhyggjuefni að slíkir púðar innihaldi mun meira af nikótíni en hefðbundnar sígarettur. Áfram verði þó hægt að kaupa slíka púða í apótekum og verði þeir flokkaðir líkt og nikótíntyggjó.
Heilbrigðissérfræðingar í Póllandi hafa varað við neikvæðum áhrifum nikótínpúða sem geta valdið krabbameini í munni, hálsi og brisi. Þá geti þeir einnig valdið hjartasjúkdómum.