Hvernig stendur á því að svo mörgum hugmyndum um nýjungar í heilbrigðisþjónustu sem ekki eru beinlínis fæddar í faðmi kerfisins er hafnað? Hvernig getum við látið það gerast að stjórnvöld skelli hurðinni ítrekað á heilbrigðistæknifyrirtæki sem bjóða fram lausnir til að bæta heilbrigðiskerfið með því að auka þjónustu og lækka kostnað? Hversu langt geta stjórnsamir stjórnmála- og embættismenn gengið í að verja kerfi á kostnað fólks?
Á sama tíma og þriðja hver króna skattgreiðenda fer í heilbrigðismál vitum við að áskoranir kerfisins á næstu árum verða enn meiri en þær eru nú. Þar kemur helst til að þjóðin er að eldast og væntingar fólks um heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum þess á hverjum tíma fara vaxandi. Það er deginum ljósara að eitthvað þarf að gera til að bregðast við stöðunni. Svarið er sennilega margþætt en flestir sem hafa kynnt sér málin að einhverju ráði átta sig á mikilvægi nýsköpunar. Skilja að heilbrigðistæknin getur bætt þjónustuna, stytt biðlista, létt óþarfa álagi af fagfólki í heilbrigðisþjónustu og gert að verkum að peningum í heilbrigðiskerfinu verður forgangsraðað betur.
Það hefur því verið dapurlegt að fylgjast með þeim aðgangshindrunum sem stjórnvöld hafa sett upp gagnvart nýsköpunarfyrirtækjum á sviði heilbrigðis- og heilbrigðistæknimála. Þar hefur embætti landlæknis verið í lykilhlutverki og gengið þannig fram að heilbrigðisráðuneytið hefur fellt úr gildi þó nokkrar ákvarðanir embættisins um synjun leyfis til ákveðinna aðila með þeim rökum að of langt væri gengið í því að setja kröfur sem ekki vörðuðu beinlínis öryggi fólks.
Það hefur ekki verið síður dapurlegt að fylgjast með því hvernig embætti landlæknis neitaði að una úrskurði kærunefndar útboðsmála, sem úrskurðaði litlu frumkvöðlafyrirtæki í vil gegn embættinu, vegna skorts á útboði á þjónustu með tæknilausnir í heilbrigðisgeiranum. Ég benti á þetta í grein hér í Morgunblaðinu fyrir rúmum tveimur árum. Niðurstaða kærunefndarinnar undirstrikaði mikilvægi þess að heilbrigðisyfirvöld skapi ekki aðstæður á markaði sem eru til þess fallnar að raska samkeppni og hindra að nýjar lausnir verði að veruleika. Málið er enn í ferli. Með viðbrögðum sínum eru stjórnvöld að þráast við kröfu um að bjóða út tiltekna þjónustu, til dæmis tölvukerfi og aðra tækni, og koma þannig í veg fyrir nauðsynlegt gagnsæi og ráðdeild í meðferð skattpeninga almennings.
Hér þarf að breyta um kúrs sem fyrst. Viðreisn mun leggja áherslu á að nýsköpun fái þann sess sem henni ber í heilbrigðiskerfinu okkar. Markmiðið er einfaldlega betri heilbrigðisþjónusta fyrir fólk.