Þann 18. desember næstkomandi eru komin 45 ár síðan tvö flugslys áttu sér stað á Mosfellsheiði með aðeins fjögurra tíma millibili.
Flugslysin á Mosfellsheiði voru tvö flugslys sem urðu með um 4 klukkustunda millibili þann 18. desember 1979 á Mosfellsheiði með þeim afleiðingum að 11 manns slösuðust. Fyrra slysið varð þegar flugvél af gerðinni Cessna 172, með fjóra innanborðs, brotlenti á heiðinni. Síðara slysið varð þegar Sikorsky HH-3E björgunarþyrla frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, með 3 slasaða úr fyrra slysinu, 2 íslenska lækna og 5 manna bandarískri áhöfn hrapaði nokkur hundruð metra frá fyrri slysstaðnum.
Slysin
Um kl 15:20 var tekið að sakna flugvélar af gerðinni Cessna 172, TF-EKK, en um borð í henni voru franskur flugmaður, Nýsjálendingur og tvær finnskar stúlkur sem störfuðu sem sjúkraþjálfarar á Reykjalundi. Skömmu seinna fannst hún á heiðinni, skammt sunnan Þingvallarvegarins, þar sem hún hafði brotlent og hafnað á hvolfi. Þyrla frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli fór á vettvang og flutti Nýsjálendinginn til Reykjavíkur. Eftir að hafa tekið tvo lækna Borgarspítalans og eldsneyti hélt þyrlan aftur á slysstaðinn til að sækja Finnana og flugmanninn. Stuttu eftir að þyrlan hóf sig aftur á loft frá slysstaðnum missti hún afl og hrapaði til jarðar nokkur hundruð metra frá flaki Cessna vélarinnar.[3] Eftir seinna slysið voru hinir slösuðu bornir um 1-1,5 km leið að sjúkrabílum sem fluttu þá á Borgarspítalann.