Sterk viðbrögð sérhagsmunaafla, mælikvarði á það hvort við erum á réttri leið
Ég er þeirrar skoðunar að finnast ólíklegt að þeir flokkar sem bjóða fram til Alþingis nái að brúa það vantraust sem hefur myndast milli þings og þjóðar. Því síður að vinda ofan af sviknum kosningaloforðum og annari spillingu sem almenningur er nánast vikulega minntur á. Það er hreinlega of langt mál að taka dæmi í þeim efnum.
Ólíklegt er, miðað við samsetningu síðustu ríkisstjórna og þeirra sem hægt er að mynda miðað við síðustu kannanir, að takist að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, slá raunverulega skjaldborg um heilbrigðiskerfið, afnema skerðingar, virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarkrána eða vinda ofan af frekari hugmyndum um einkavæðingu grunnstoða samfélagsins.
Allar líkur eru á því að kerfisbundið verði haldið áfram að grafa undan innviðum til að tryggja og hyggla þröngum sérhagsmunaöflum enn meiri auð og enn meiri völd. Sömu öfl og hafa tekið yfir íslenskt samfélag sem skuggar og fjárhagslegur bakhjarl húsbóndahollra stjórnmála.
En þar með er ekki sagt að allir þingmenn eða flokkar séu spilltir og svikulir. Síður en svo. Það er einfaldlega borin von að samsetning næstu ríkisstjórna verði með þeim hætti að koma megi í veg fyrir það sem að ofan er lýst.
En hvað er til bragðs að taka?
Ég viðraði þá hugmynd fyrir nokkru að verkalýðshreyfingin færi fram með þverpólitískt framboð til Alþingis og vakti sú hugmynd töluverða athygli. Svo mikla að varðhundar núverandi kerfis reyndu að halda því fram að það stangaðist á við lög að hreyfingin hefði skoðanir á því eða vildi hafa bein áhrif á hvernig landinu okkar er stjórnað.
Þó byggðist hugmyndin eingöngu á því að hreyfingin bjóði fram með stuttan verkefnalista sem kjósendur gætu valið um. Verkefnalista sem væri ekki útþynntur með bittlingum á háborði stjórnarráðsins heldur væri framboðið nauðvörn gegn þeirri stöðu sem uppi er í íslenskum stjórnmálum. Framboðið væri tilraun í eitt kjörtímabil.
Sterk viðbrögð sérhagsmunaafla er mælikvarði á það hvort við erum á réttri leið eða ekki. Mín tilfinning var sú að með þessari hugmynd vorum við á hárréttri leið. Stjórn VR lét því gera viðhorfskönnun almennings á því hvort óstofnað stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar nyti brautargengis í næsti Alþingiskosningum.
Niðurstaðan var athyglisverð og ánægjuleg því 23% svarenda höfðu hug á að kjósa slíkan flokk verði hann stofnaður.
Það þýðir að um væri að ræða stærsta stjórnmálaflokkinn miðað við síðustu kannanir og mögulega ráðandi afl eftir næstu kosningar. Þetta hljóta að vera stórfréttir en að sama skapi áfellisdómur yfir núverandi flokkakerfi því samkvæmt könnun MMR væri óstofnað framboð að taka fylgi af öllum flokkum. Stjórn VR samþykkti á síðasta stjórnarfundi að fela formanni félagsins að kynna ítarlegar niðurstöður fyrir miðstjórn ASÍ.