Jarðskjálfti 4,0 að stærð var 5,8 km kílómetra norður af Grindavík klukkan 03:15 í nótt.
Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands hafa tilkynningar borist af Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og frá Borgarnesi um að skjálftinn hafi fundist þar. Yfir 100 minni eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið en töluvert hefur dregið úr virkninni.
Um 700 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, mun fleiri en vikuna á undan þegar þeir voru um 330. Mesta virknin var á Reykjanesskaga, 400 skjálftar miðað við 140 í síðustu viku. Smáskjálftahrina var suður af Merardölum (á Reykjanesskaga) 29. og 30. desember. Stærsti skjálfti vikunnar var í Eyjafjarðaráli 30. desember kl. 22:44, 2,8 að stærð. Hann fannst á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Suðurland
Á Suðurlandsbrotabeltinu mældist um tugur skjálfta, stærsti um 1,5. Rólegt var á Hengilssvæðinu og tveir smáskjálftar voru við Heklu.
Reykjanesskagi
Um 400 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni og er það mun meiri virkni en í fyrri viku þegar þeir voru 140. Rúmlega helmingur var við Fagradalsfjall en þar hófst smáskjálftahrina, skammt suður af Merardölum, seinni partinn 29. desember sem stóð fram á kvöld daginn eftir. Á svæðinu norður af Grindavík mældust 80 skjálftar, stærstu um tvö stig. Um 60 skjálftar voru á svæðinu frá Núpshlíðarhálsi í vestri og austur fyrir Kleifarvatn, allir innan við tvö stig. Nokkrir smáskjálftar voru við Reykjanestá. Um tugur skjálfta varð á Reykjaneshrygg, stærsti 29. desember kl. 11:16, 3,1 að stærð.
Norðurland
Tæplega 130 jarðskjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, mun fleiri en vikuna á undan þegar þeir voru um 60. Í Eyjafjarðaráli urðu tæplega 30 skjálftar, stærsti 30. desember kl. 22:44, 2,8 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Hann fannst á Siglufirði og Ólafsfirði. Tæplega 50 skjálftar urðu í Öxarfirði. Flestir skammt norður af Tjörnesi dagana 28. og 29. desember. Stærsti skjálftinn á því svæði var rúm tvö stig. Rólegt var í Grímseyjarbeltinu líkt og í fyrri viku. Nokkrir skjálftar voru við Kröflu, stærsti 1,9 að stærð og fáeinir við Þeistareyki.
Hálendið
Heldur færri skjálftar mældust í Vatnajökli í þessari viku, um 20, en þeirri fyrri þegar þeir voru um 40. Tæpur helmingur var við Bárðarbungu og þar var stærsti skjálftinn 3. janúar kl. 22:33, í suðvesturhluta öskjunnar, 2,0 að stærð. Þrír skjálftar urðu við Grímsfjall, stærsti 30. desember kl. 22:04, 1,9 að stærð.
Svipaður fjöldi skjálfta (12) var við Öskju og síðustu viku, allir um og innan við einn að stærð. Við Herðubreið og Herðubreiðarfjöll mældust um 50 jarðskjálftar, miðað við 20 í síðustu viku. Stærsti skjálftinn var 29. desember kl. 01:13, 2,7 að stærð.
Einn skjálfti mældist í vestanverðum Langjökli og annar við Eystri-Hagafellsjökul, báðir um eitt stig. Skammt suðvestur af Sandvatni varð skjálfti að morgni nýársdags, 1,9 að stærð.
Mýrdalsjökull
Um 20 smáskjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli, flestallir innan Kötluöskjunnar og tveir litlir skjálftar í Landmannalaugum.