Árið 2024 voru skráð rúmlega 148 þúsund mál hjá lögreglu á öllu landinu sem gerir um 405 mál á dag og 17 mál á hverri klukkustund. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölfræði, sem embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið saman.
Verkefni lögreglu geta verið margvísleg og tengjast ekki alltaf afbrotum heldur einnig veikindum, slysum eða öðru sem fólk þarf aðstoðar með. Um 31% landsmanna leita til lögreglu með þjónustu eða aðstoð árlega.
Flest hegningarlagabrot eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu, eða 9.400 talsins sem er svipaður fjöldi og árið á undan.
Árið 2024 var heildar fjöldi ofbeldisbrota lægri en meðaltal síðustu þriggja ára (↓3%) en brotin hafa þó verið óvenju mörg árin 2021-2024 miðað við áratuginn þar á undan (rétt yfir 2.000 að meðaltali 2021-2024 en um 1.500 að meðaltali áratug þar á undan). Meiriháttar og stórfelld ofbeldisbrot voru rétt um 300 talsins (↑19%) árið 2024 og því um fimmtungi fleiri en að meðaltali árin 2021-2023.
Ekki hafa verið skráð fleiri manndráp hér á landi ef miðað er við fjölda látinna á íbúa ef litið er aftur til aldamóta. Grunur var um manndráp í sjö málum en alls létust átta einstaklingar í málunum.
Lögregla og tollgæsla leggja hald á talsvert magn fíkniefna á hverju ári. Árið 2024 var engin undantekning þar á en lagt var hald á rúmlega 283 kg. af maríjúana sem er mesta magn sem lögregla og tollur hafa haldlagt á einu ári.
Árið 2024 var því viðburðarríkt hjá lögreglu, en þess utan hélt náttúran áfram að láta finna fyrir sér og voru jarðhræringarnar á Reykjanesi viðamestar. Alls gaus sex sinnum í Sundhnúksgígaröð við Grindavík.
Á árinu tókst lögregla jafnframt á við eitt stærsta löggæsluverkefni sem hún hefur sinnt, Norðurlandaráðsþingið, sem fór fram hér á landi í lok október. Margir erlendir þjóðarleiðtogar komu á þingið og var forseti Úkraínu meðal gesta. Rúmlega 300 lögreglumenn komu að verkefninu og sinntu öryggisgæslu á meðan þinginu stóð.
Umræða