Bologna Follow Up Group, embættismannanefnd Bologna samstarfsins um háskólamál og samevrópska háskólasvæðisins (e. European Higher Education Area) hefur gefið út sameiginlega yfirlýsingu ríkja og hagsmunaaðila sem eiga aðild að samstarfinu um innrás Rússa í Úkraínu. Bæði Rússland og Úkraína eru aðilar að Bologna samstarfinu.
Í yfirlýsingunni fordæma aðildarríki og hagsmunaaðilar samevrópska háskólasvæðisins harðlega árás Rússa í Úkraínu. Þau hvetja aðildarríkin og hagsmunasamtök evrópusamstarfsins að styðja við háskólastarf í Úkraínu; að auðvelda háskólanemum frá Úkraínu aðgengi að háskólum og veita þeim tækifæri til að ljúka námi; og að auðvelda akademísku starfsfólki úkraínskra háskóla sem nú er á flótta aðgengi að styrkjum og störfum. Þá er kveðið fast á um samstarf á sviði háskóla og vísinda við stjórnvöld og stofnanir í Rússlandi eða öðrum aðildarríkjum er styðja innrás Rússa í Úkraínu. Einnig er vísað til hugrekkis rússnesks almennings og aðila innan rússneska háskólasamfélagsins sem mótmælt hafa innrásinni.
Að lokum er lagt til að þátttaka Rússa og annarra aðildarríkja er styðja innrásina í Úkraínu í nefndum og vinnuhópum á vegum samstarfsins verði fryst (e. Suspended).
Ísland var í hópi ríkja er skipaði ritnefnd yfirlýsingarinnar, og meðal fyrstu landa er undirrituðu hana. Markar yfirlýsingin núverandi stefnu íslenskra stjórnvalda í háskólamálum í þessum málaflokki. Stuðningsaðilum við yfirlýsinguna er bætt við jafnóðum og þær berast.
- Hlekkur á yfirlýsinguna með aðilum er stutt höfðu yfirlýsinguna 10.mars 2022.
- Hlekkur á síðu tékkneskra stjórnvalda þar sem yfirlýsingin er hýst og er uppfærð um það bil annan hvern dag.
Ítarefni:
Megintilgangur Bologna samstarfsins er að mynda samevrópskt háskólasvæði þar sem hreyfanleiki nemenda og háskólakennara er auðveldaður. Áhersla er lögð á skilvirkt innra eftirlit og mat á öllu námi til að stuðla að sem mestu samræmi milli skóla og landa. Eins á sameiginleg gildi háskólastarfs innan Evrópu, svo sem akademískt frelsi, sjálfstæði stofnana og réttur nemenda og starfsmanna við Háskóla í lýðræðislegri samfélagsumræðu.
Ísland var á meðal þeirra 29 Evrópuríkja sem undirrituðu Bologna yfirlýsinguna þann 19. júní 1999 um samstarf á sviði æðri menntunar. Samevrópska háskólasvæðið (e. European Higher Education Area (EHEA)) var stofnað árið 2010 á tíu ára afmæli Bologna ferlisins. Aðildarríki Bologna ferlisins eru nú 49, en einnig koma að því ýmis hagsmunasamtök (t.d. samtök evrópskra stúdenta, samtök evrópskra háskóla og samtök atvinnurekenda í Evrópu), fulltrúar Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk aðila frá evrópskum gæðamatsstofnunum.