Öll aðildarfélög Sjómannasambandsins felldu kjarasamning með 67% atkvæða. Samningsboðið var til tíu ára. Sextán félög eru í Sjómannasambandi Íslands. Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir niðurstöðuna hafa komið á óvart.
Kjörsókn í Sjómannasambandi Íslands var 48 prósent. Af þeim kusu tæp 32 prósent með nýjum kjarasamningi en 67 prósent á móti en eitt prósent tók ekki afstöðu.
Kjarasamningurinn sem stéttarfélög sjómanna undirrituðu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem nú hefur verið felldur, var til tíu ára, en fáheyrt er að samið sé til svo langs tíma. Samningar félaganna hafa verið lausir í rúm þrjú ár.