Birt hafa verið til umsagnar áform heilbrigðisráðherra um lagabreytingu þess efnis að stjórn Sjúkratrygginga Íslands verði lögð niður. Hlutverk forstjóra verður jafnframt skýrt nánar í lögum og hann gerður ábyrgur fyrir þeim verkefnum sem stjórninni hefur hingað til verið falið. Þetta er í samræmi við stefnu stjórnvalda á liðnum árum um að einfalda yfirstjórn stofnana og styður einnig markmið um hagræðingu í ríkisrekstri.
Ríkisstjórnin hefur lagt sérstaka áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri og í tillögum starfshóps forsætisráðherra sem skilað var 4. mars sl. er lagt til að stjórnir almennra stofnana verði lagðar niður. Er þar bent á að slíkar stjórnir hafi oft óljósa stöðu og hlutverk og hætta á að ábyrgðarskil stjórnar og forstöðumanns stofnunar verði óljós. Í skýrslu verkefnisstjórnar um stofnanakerfi ríkisins frá árinu 2015 og í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um stjórnir stofnana ríkisins frá árinu 2018 er einnig fjallað um þetta.
Gert er ráð fyrir að frumvarp heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um sjúkratryggingar með framangreint að markmiði verði lagt fram á haustþingi 2025. Skipunartími sitjandi stjórnar Sjúkratrygginga Íslands rennur út í lok mars 2026.
Frestur til að skila umsögnum um áformaða lagasetningu er til 30. apríl næstkomandi.