Hafa tryggt aðgang að allt að fjórum Airbus flugvélar til afnota fyrir nýtt flugfélag sem myndi að nokkru fylla í skarðið eftir gjaldþrot WOW air
Á nokkrum dögum skráðu um 500 manns sig til þátttöku í nýju flugfélagi á flyicelandic.is þar á meðal 46 fyrrum starfsmenn Wowair. Hópurinn er tilbúinn að leggja til nær 500 milljónir króna í verkefnið.
,,Við sem stöndum að flyIcelandic verkefninu opnuðum síðuna eftir að að hafa tryggt aðgang að allt að fjórum Airbus flugvélar til afnota fyrir nýtt flugfélag sem myndi að nokkru fylla í skarðið eftir gjaldþrot WOW air.“ Segir Jóel Kristinsson Verkefnastjóri Flyicelandic.
Til að af verkefninu geti orðið þurfa einnig að koma að þessu hæfir stjórnendur og fyrirtæki úr ferðaþjónustu sem gætu séð um farmiðasölu og markaðssetningu.
Undanfarnar vikur höfum við verið í sambandi við tvo aðra aðila, Hreiðar Hermannsson og hluthafi.com sem báðir segjast vera vinna að fjármögnun og undirbúningi nýs flugfélags. Við höfum boðist til að leggja til flugvélarnar og flugrekstrarsviðið á hagstæðum kjörum á móti íslenskum aðilum sem myndu sjá um sölu, markaðssvið og þjónustu við farþega.
Þrátt fyrir ítrekaðan áhuga okkar á samstarfi við ofangreinda aðila og jákvæðni þeirra í samtölum við okkur hefur málið ekki þokast áfram.
Á meðal skráninga á flyicelandic.is er aðeins örlítið brot af fyrrum starfsmönnum WOWair. Einnig sýnist okkur vanta aðra öfluga aðila með reynslu úr ferðaþjónustu sem gætu leitt verkefnið á Íslandi þrátt fyrir að frá okkur liggi fyrir tilboð um flugvélar og flugrekstrarsvið.
Nú þarf að taka ákvörðun um hvort þær flugvélar sem flyicelandic.is getur útvegað fari til Íslands eða til annarra verkefna. Þrátt fyrir jákvæða umræðu og yfirlýsingar í fjölmiðlum er þegar á reynir hugsanlega ekki nægur áhugi á meðal Íslendinga að stofna nýtt flugfélag.
Póstur hefur verið sendur á alla sem skráðu sig á flyicelandic.is til þátttöku í nýju flugfélagi. Við erum reiðubúnir til samstarfs við aðila sem gefa sig fram og hafa bolmagn til að vinna með okkur að verkefninu af fullri alvöru.
Með þökkum fyrir stuðninginn, Jóel Kristinsson Verkefnastjóri