Kvöldfréttirnar færast frá klukkan 19 til 21 í sumar, frá og með föstudeginum 14. júní. Er það gert til að lágmarka rask sem EM karla í fótbolta og Ólympíuleikarnir í París hefðu annars í för með sér. Þetta kemur fram í tilkynningu ríkisútvarpsins.
,,Íþróttir verða áberandi í sumar en tvö stórmót verða í beinni útsendingu á RÚV. EM karla í fótbolta hefst föstudagskvöldið 14. júní klukkan 19 með leik Þýskalands og Skotlands. Mótið fer fram í Þýskalandi og leikirnir fara fram klukkan 13, 16 og 19 í beinni útsendingu. Úrslitaleikurinn fer fram sunnudagskvöldið 14. júlí klukkan 19.
Ólympíuleikarnir hefjast svo í París rúmri viku síðar, föstudaginn 26. júlí og standa yfir til sunnudagsins 11. ágúst. Flestar lykilgreinar verða á kjörtíma og beinar útsendingar verða frá morgni til klukkan rúmlega 20 á kvöldin.
Þótt íþróttir verði fyrirferðamiklar á dagskránni í sumar verður að sjálfsögðu mikið af öðru efni í boði. Í spilaranum verður að finna úrval af sakamálaefni og íslenskum heimildarmyndum ásamt verðlaunamyndum eftir konur, sem hafa verið á dagskrá undanfarnar vikur.
Á meðan stórmótunum stendur verða engar sjónvarpsfréttir klukkan 22, en fréttirnar færast aftur í fyrra horf mánudaginn 12. ágúst.“ Segir í tilkynningunni.