Hugleiðingar veðurfræðings
Það var mjög hlýr loftmassi yfir landinu um helgina og vænar hitatölur mældust í mörgum landshlutum. Í vikunni sem nú er að byrja verður norðlæg átt ríkjandi og smám saman færist kaldara loft yfir landið. Um og uppúr miðri vikunni verður orðið kalt í veðri á norðanverðu landinu og nokkuð vætusamt einnig á þeim slóðum.
Í dag verður norðanáttin ekki búinn að ná völdum og má segja að við séum í leifunum af hita helgarinnar. Hámarkshiti væntanlega kringum 20 stig í mörgum landshlutum, en öllu kaldara á Austurlandi. Áttin er norðlæg eða breytileg, víða 3-8 m/s, en en 8-13 um landið norðvestanvert og með austurströndinni. Víða bjart með köflum, en sunnanlands eru líkur á skúrum síðdegis.
Veðurhorfur á landinu
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, en 8-13 um landið norðvestanvert og með austurströndinni. Bjart með köflum, en sunnanlands eru líkur á stöku skúrum síðdegis. Hiti 13 til 22 stig, hlýjast suðvestantil. Skýjað og lítilsháttar væta á norðaustanverðu landinu á morgun og kólnar þar. Bjart að mestu sunnan- og vestanlands með hita að 20 stigum. Spá gerð: 10.07.2023 05:23. Gildir til: 11.07.2023 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Norðan 5-13 m/s og dálítil væta um landið norðaustanvert, en stöku skúrir á Suðurlandi, annars bjart. Hiti 5 til 18 stig, mildast suðvestanlands.
Á fimmtudag:
Ákveðin norðanátt með rigningu og svölu veðri á norðurhelmingi landsins, en þurrt að kalla og mildara sunnantil.
Á föstudag:
Allhvöss eða hvöss norðanátt á vesturhelmingi landsins og rigning, einkum á Vestfjörðum, en mun hægari vindur austantil, úrkomuminna og hlýnar heldur í veðri þar. Stöku skúrir syðst og hiti upp í 13 stig þar.
Á laugardag og sunnudag:
Norðaustlæg átt 5-13 m/s og skýjað fyrir norðan með lítilsháttar vætu. Bjart með köflum sunnan heiða og stöku skúrir seinni partinn. Hlýnar í veðri.
Spá gerð: 10.07.2023 08:22. Gildir til: 17.07.2023 12:00.