Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Þetta er fyrsta friðlýsing svæðis í verndarflokki rammaáætlunar. Undirritunin fór fram í Ásbyrgi og er hluti af átaki stjórnvalda í friðlýsingum.
Með friðlýsingunni er Jökulsá á Fjöllum vernduð gegn orkuvinnslu sem tillögur voru um með Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Svæðið sem fellur undir friðlýsinguna afmarkast af vatnasviði ofan áður fyrirhugaðra stíflumannvirkja og meginfarveg og næsta nágrenni hans þar fyrir neðan.
Samhliða friðlýsingunni í dag undirritaði ráðherra breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð um stækkun hans sem nemur um tveggja ferkílómetra svæði í Ásbyrgi.
Friðlýsingin í dag er hluti af friðlýsingarátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör á síðasta ári. Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur nú að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem eru undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga. Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í lok júní var liður í átakinu en þá bættust m.a. Herðubreið og Herðubreiðarlindir við þjóðgarðinn. Einnig hefur Akurey í Kollafirði nú þegar verið friðlýst og áform um fjölda friðlýsinga verið kynnt.
Fjölmenni var við friðlýsingarathöfnina sem bar upp á sama dag og Jökulsárhlaupið en hún fór fram við Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Auk ráðherra og ráðuneytisstarfsfólks var viðstatt heimafólk og aðrir gestir.
Umræða