Veirufangar og veraldarharmur, ljóðabók Valdimars Tómassonar, hefur verið í fyrsta sæti á metsölulistanum yfir ljóðabækur, nánast frá því hún kom í verslanir. Ljóðabækur Valdimars eða ljóða Valda eins og kunnugir kalla hann, hafa oftar en ekki ratað í efsta sæti vinsældarlistans og setið þar sem fastast og oftar en ekki verið uppseldar.
,,Það var skilgreint sem uppselt í gamla daga, Þegar lagerinn nam færri en 50 eintökum hjá útgefanda. En núna telur hann 25 eintök og væri því uppseld, samkvæmt þeirri greiningu. En svo veit maður ekki hvað lager bókaverslana telur. Eymundsonbúðir Bókakaffið Selfossi o. fl umboðsaðilar.“ Segir á síðu skáldsins.
,,Þetta er mögnuð og margslungin bók! Nýt þess að hafa hana á náttborðinu :)“ segir aðdáandi. Þá hefur Lestrarklefinn.is fjallað um ljóðabókina og stiklum á umfjöllun vefsins um bókina: ,,
Veirufangar og veraldarharmur eftir Valdimar Tómasson
Háttbundin og taktföst kvæði
Ég hafði ekki áður lesið ljóð eftir Valdimar og vissi því ekki við hverju var að búast. Eftir örlitla eftirgrennslan komst ég þó að því að hann skrifar myrk ljóð þar sem dauðinn er aldrei langt undan. Fyrri ljóð hans hafa verið í óbundnu máli en í Veirufangar og veraldarharmur yrkir Valdimar í bundnu máli. Stíllinn er háttbundinn, með stuðlum og höfuðstaf og fyrir vikið mjög taktfastur og þungur. Efni ljóðanna er ekki síður þungt, eins og áður í ljóðum Valdimars. Þegar bókin er öll lesin í einum rykk er hætta á að lesandi tapi þræðinum, festist í taktinum og tapi merkingu ljóðanna.
Harmþrungin er gamansöm lýsing
Bókinni er skipt í tvo hluta. Sá fyrri (veirufangar) er töluvert styttri en sá síðari og fjallar hann um um veirufárið mikla á vordögum 2020. Þótt efnið sé alvarlegt og þungt þá má gæta nokkurs húmors í sumum ljóðanna. Til dæmis þegar hann segir: Nú er í Smitvík nöpur vist / ég norpa í tómu porti, / líf mitt er allt á einhvern veg / útaf gengið korti. / Í einsemd kveð ég kvæðastef / sem Kristján fjallaskáld orti, / á kvöldin heyrast kynjahljóð / af klósettpappírskorti. Hann fangar þann raunveruleika sem sumir Íslendingar lifðu á meðan á samkomubanninu stóð. Til dæmis um fundi við tölvuskjái, óttann við að fara út í búð. Einsemdina.
Heimsósómi og vonleysi
Í seinni hluta bókarinnar (veraldarharmur) er Valdimar mun pólitískari en í fyrri hlutanum. Ljóðin eru enn háttbundin, með stuðlum og höfuðstaf og í bundnu máli. Í gegnum ljóðin dregur hann upp myndir af hinu spillta Íslandi; spilltri pólitík, baráttu hinna fátæku, kjaftagangi á Klaustri, fordómum. Hann skrifar um firringu hins vestræna samfélags, neylsuhyggju og forheimskun. Ljóðin sýna Ísland sem gróðrarstíu spillingar og óréttlætis, þar sem erlendir auðjöfrar fá að kaupa heilu jarðirnar og Hver fjóla er fótum troðin / og fegurðin kaupum boðin. Ljóðin minna mann á að margur pottur er brotinn í íslensku samfélagi og raunin er sú að Íslendingar eru allt of fljótir að gleyma óréttlæti sem hefur dunið yfir.
Ég mæli með Veiruföngum og veraldarharmi fyrir þá sem hafa gleymt því hvernig var að lifa samkomubann, sem áttu erfiða tíma í samkomubanni. Einnig fyrir þá sem hafa gleymt hve mikið hefur gengið á í íslensku samfélagi og vilja muna eftir því sem enn er óunnið. Ljóðin geta eflaust blásið einhverjum baráttuanda í brjóst.“ Segir á vefnum Lestrarklefinn.is