Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, og T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi, hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um sjávarútvegs- og fiskeldismál.
Markmið yfirlýsingarinnar er að efla samstarf og samvinnu á sviði rannsóknar og þróunar í sjávarútvegsmálum, þá sérstaklega að ýta undir samstarf íslenskra og indverskra fyrirtækja á þessum vettvangi.
Í samstarfsyfirlýsingunni er vikið að mikilvægi fiskveiðistjórnunnar, sjálfbærra veiða og umhverfissjónarmiða sem og fullnýtingu afurða og hámörkun verðmæta þeirra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra: „Í þessu samstarfi geta falist mikilvæg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að hasla sér völl á þeim sístækkandi markaði sem Indland er. Um leið er þetta tækifæri til að miðla af reynslu Íslendinga þegar að kemur að hagkvæmri fiskveiðistjórnun, sjálfbærum veiðum og fullnýtingu afurða.“