Dagana 9. til 11. október er IÐNAÐARSÝNINGIN 2025 haldin í Laugardalshöll og er opin frá 10-18 í dag og 10-17 á morgun.
Iðnaður á Íslandi er afar fjölþættur og skapar um 41% útflutningstekna þjóðarinnar og þar eru um 51.000 störf einn af hverjum fjórum á innlendum vinnumarkaði.

Samtök Iðnaðarins eru samstarfsaðili iðnaðarsýningarinna en innan samtakanna eru um 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda er sýnir stærð iðnaðargeirans hér á landi.
IÐNAÐARSÝNINGIN 2025 endurspeglar þessa breidd og verður hún með stærri sýningum hér á landi en á annað hundrað fyrirtæki kynna vörur og þjónustu og í mörgum básum fleiri en eitt fyrirtæki alls staðar að úr heiminum.

IÐNAÐARSÝNINGIN 2025 er haldin af sýningarfyrirtækinu Ritsýn sf. sem hefur í 28 ár sérhæft sig í fagsýningum í Laugardalshöllinni. Mikið að gera því Sjávarútvegssýning nýbúin og Landbúnaðarsýning á næsta ári.

Á IÐNAÐARSÝNINGUNNI 2025 verður meðal annars lögð áhersla á að kynna mannvirkjagerð, orku, innviði, vistvænar lausnir og hönnun.

Sýningin mun höfða bæði til fagmanna og almennings og verða þar bæði öflug fyrirtæki er hafa starfað um árabil á Íslandi og sprotafyrirtæki sem gætu orðið stórveldi framtíðarinnar.

Sýningin er afar fjölbreytt: Til dæmis er verið að reisa hús á sýningarsvæðinu. Við sjáum þar líka alls konar öryggisvörur fyrir fagmenn og heimili.

Þá er þarna framtíðin í formi öflugra rafgeyma er geta geymt rafmagn frá sólarsellum sem eru líka á sýningunni. Alls konar hugbúnaður sem einfaldar rekstur fyrirtækja. Einnig rekstrarvörur bæði fyrir iðnaðinn og almenning.

Og ekki má gleyma öflugum vinnuvélum sem eru allt frá litlum vélum sem hinni almenni maður sem er í framkvæmdum getur stjórnað og upp í afar öflugar vélar og fjölmargar vélar er slípa gólf og hreinsa.

Þá eru bílar fyrir iðnaðarmanninn og alla sem standa í framkvæmdum. Og alls kyns drónar er vinna meðal annars við öryggiseftirlit. Ekki síst eru kynntar alls kyns nýjar lausnir varðandi húsbyggingar svo sem tilbúin hús og allt er kemur nálægt byggingarferlinu.
IÐNAÐARSÝNINGIN 2025 verður opin:
Fimmtudaginn 9. október frá kl. 14.00 til 19.00
Föstudaginn 10. október frá kl. 10.00 til 18.00
Laugardaginn 11. október frá kl. 10.00 til 17.00



