Út er komin samanburðarskýrsla á vegum Eurydice um jöfnuð í skólakerfum þátttökulanda. Dregur skýrslan meðal annars fram þann mikla kerfisbundna mun sem virðist vera milli ríkjanna í baráttunni gegn ójöfnuði í skólum.
Í tilefni útgáfu Eurydice-skýrslunnar sagði Mariya Gabriel, fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði nýsköpunar, rannsókna, menningar, menntunar og æskulýðsstarfs að Evrópuþjóðir þyrftu að læra hver af annarri og tileinka sér aðferðir til að auka jöfnuð í skólakerfum sínum. Hún sagði ennfremur: „Sanngjörn samfélög eru lykilatriði fyrir Evrópu til að dafna í framtíðinni. Til þess að ná þessu markmiði verða menntakerfin að vera sanngjörn og tryggja að allt ungt fólk geti þróað hæfileika sína. Félagslegur og efnahagslegur bakgrunnur gegnir áfram of stóru hlutverki hvað varðar námsárangur, sem er ekki sanngjarnt gagnvart unga fólkinu okkar.“
Skýrslan byggir á rannsókn sem framkvæmd var árið 2019 í samstarfi við stofnanir menntamála í 37 ríkjum Evrópu og var Ísland meðal þátttökuríkja. Kannað var hvernig þættir í uppbyggingu skólakerfa geta haft áhrif á jöfnuð í skólakerfum. Þeirra á meðal eru menntun og umönnun barna á leikskólaaldri, fjármögnun skóla, aðgreining nemenda innan bekkjardeilda, inntökustefna skóla m.t.t. námsárangurs nemenda, endurtekning bekkja á skólagöngunni, sjálfstæði skóla, eftirfylgni og ábyrgð (e. accountability) á námsárangri. Voru þessir þættir meðal annars tengdir við frammistöðu nemenda í alþjóðlegum könnunum (PISA, PIRLS og TIMSS).
Í Eurydice-skýrslunni kemur fram að ávinningur virðist felast í því fyrir nemendur síðar á skólagöngunni, að hafa verið í leikskóla. Þetta á sérstaklega við þá nemendur sem standa höllum fæti. Í skólakerfum of margra ríkja virðist fjárhagur foreldra hafa mest áhrif á það hvort þeir sendi börn sín á leikskóla, á þann veg að efnalitlar fjölskyldur geri það síður, sem sýnt hefur sig að getur komið niður á námsárangri barnanna síðar.
Um stöðu Íslands í þessu samhengi er áhugavert að sjá í skýrslunni að hlutfall þeirra barna sem ganga í leikskóla er með allra hæsta móti hér á landi. Eins er ljóst að fjárveitingar hins opinbera til menntamála eru einnig með mesta móti. Á svipuðum stað eru Finnland, Svíþjóð og Noregur. Í meirihluta þátttökuríkja fá börn á yngsta stigi grunnskólagöngunnar úthlutað skólavist eftir búsetu. Á framhaldsskólastigi er oftast frjálsara val en þó er algengt að góður námsárangur sé forsenda inntöku í tiltekna skóla. Ísland sker sig nokkuð úr hvað varðar sjálfstæði framhaldsskóla til að ákvarða inntökuskilyrði, sem er mikið hér á landi, en í skýrslunni er m.a. bent á að hófleg miðstýring í þessu sambandi geti almennt dregið úr ójöfnuði. Ísland og Noregur eru meðal ríkja þar sem fátítt er að börn séu látin sitja aftur í sama bekk en það er nokkuð algengt í ýmsum þátttökuríkjum. Sjálfstæði skóla og sveitarfélaga mælist mjög hátt á Íslandi og á það ekki síst við um fjármál. Fjallað er um ábyrgð á eftirfylgni í kjölfar ytra mats. Í sumum löndum tíðkast að veita viðurkenningar, auka þjálfun eða breyta fjárveitingum í kjölfar slíks mats en þetta gæti verið gagnlegt fyrir Ísland að skoða nánar.
Í skýrslunni eru settar fram tillögur að aðgerðum sem stjórnvöld geta gripið til sem reynst hafa öflug jöfnunartæki, t.d. að auka aðgengi að leikskólum, taka betur þátt í kostnaði foreldra vegna leikskólagöngunnar og að útskýra fyrir foreldrum sem ekki senda börn sín í leikskóla, af menningarlegum eða trúarlegum ástæðum, hvers börnin fara á mis.
Lesa má skýrsluna í heild sinni á ensku hér en einnig er hægt að hlaða henni niður á PDF-formi.