Ung kínversk kona sem leitað hefur verið að í Reynisfjöru frá því um klukkan þrjú í dag, fannst látin á sjötta tímanum. Þrjár aðrar konur féllu einnig í flæðarmálinu en náðu að komast í land. Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti um andlátið nú á sjötta tímanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann konuna. Lögreglan rannsakar tildrög slyssins.
Klukkan 14:50 barst neyðarlínu tilkynning um að erlendur ferðamaður hefði farið út með öldu í Reynisfjöru. Voru björgunaraðilar þegar sendir á vettvang. Björgunarsveitir í Rangárvallar- og Skaftafellssýslu hófu þegar leit að ferðamanninum, sem var ung kínversk kona.
Einnig komu að leitinni bátasveitir frá Árnessýslu ásamt bát frá Vestmanneyjum og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Nú fyrir stundu fann þyrla Landhelgisgæslunnar konuna látna í sjónum við Reynisfjöru.
Rannsóknardeild Lögreglustjórans á Suðurlandi rannsakar nú tildrög slyssins.
Umræða