Sigurjón Ólafsson sem er rúmlega fimmtugur var í fyrradag dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir að hafa ítrekað nauðgað andlega fatlaðri konu og látið hana hafa kynferðismök við aðra menn. Sigurjón braut einnig kynferðislega á andlega fötluðum syni konunnar og kærustu hans.
Saklaus maður ranglega sakfelldur á netinu
Áður en ljóst var að Sigurjón Ólafsson var sekur í málinu, var annar maður ranglega sakaður um voðaverkin en það eina sem þeir höfðu átt sameiginlegt var að hafa búið á Akranesi.
Rosalegur múgæsingur fór af stað á netsíðu þar sem meðlimir eru harðir andstæðingr kynferðisofbeldis. Maðurinn var nafngreindur á þeirri síðu og birtar af honum myndir og ýmsir létu fúkyrði falla um manninn.
Æra hans var í raun eyðilögð og maðurinn missti bæði mannorðið og vinnuna og varð fyrir miklu andlegu áfalli sem og ofsóknum. Þá voru meðlimir netsíðunnar að skiptast á sögum um manninn í einkaskilaboðum og hundruðir tóku þátt í spjalli um manninn.
Fréttatíminn er með skjáskot af þeim ummælum sem látin voru falla á síðunni og ummælin sem voru höfð um hann eru mjög gróf í ljósi þess að hann er og var saklaus af þeim ásökunum sem upp á hann voru bornar. Öfgafemínstar höfðu hæst á síðunni og spöruðu ekki ásakanir á hendur manninum og birtar voru niðrandi frásagnir um hann og hans líf. Maðurinn hefur alltaf verið með hreina sakaskrá.
Fréttatíminn fékk staðfestingu hjá lögreglunni á Akranesi og hjá Ríkislögreglustjóra að umræddur maður væri ekki sakborningur í þessu hræðilega kynferðisbrotamáli. Í kjölfarið var haft samband við fólk sem þekkti manninn og það báru honum allir vel söguna. Maðurinn er rólegur og yfirvegaður, hlédrægur og mjög meinlaus og þægilegur og góður maður en er ekki allra. Hann vinnur á vinnustað þar sem börn eru og er sérmenntaður í uppeldisfræðum.
Missti vinnuna og varð fyrir grófum árásum
Yfirmenn mannsins funduðu um hans mál og þær ásakanir sem á hann voru bornar og til stóð að segja honum upp á vinnustaðnum. Einungis vegna þess að maðurinn var með góðan talsmann sem barðist fyrir réttlæti hans og sannaði sakleysi hans, þá var maðurinn settur tímabundið í leyfi frá störfum. Yfimenn hans höfðu fengið síimtöl frá foreldrum og þeim hótað öllu illu ef maðurinn yrði ekki rekinn. Þá varð maðurinn fyrir miklu aðkasti í daglegu lífi og á netinu og var einnig hótað öllu illu.
Manninum var í kjölfarið ráðlagt að leita til lögmanns vegna þess hversu harðar árásir voru á hendur honum og gerði hann það. Lögmaðurinn fékk afrit af öllum skjáskotum af umræddri netsíðu og kannaði þá aðila sem voru með mestu ærumeiðingarnar. Í ljós kom að mjög margir á þessum hópi eru með falska facebook reikninga og sigla þannig undir fölsku flaggi og m.a.s. einhverjir sem standa að síðunni.
Einhverjir voru þó undir eigin nafni og ákvað lögmannsstofan í ljósi grófra ærumeiðinga að stefna viðkomandi aðilum til greiðslu bóta. Hver og einn sem var sekur um óréttmætar ærumeiðingar er krafinn um miskabóta að fjárhæð 750.000 krónum.
Maðurinn ranglega sakaður um hræðileg kynferðisafbrot
Kynferðisbrotin sem maðurinn var ranglega sakaður um að hafa framið, áttu sér stað á árunum 2016–2020 af hálfu Sigurjóns Ólafssonar.
Sigurjón Ólafsson var dæmdur fyrir að láta aðra menn hafa kynferðismök við konuna og þá braut Sigurjón einnig kynferðislega á andlega fötluðum syni konunnar og kærustu hans, en sonurinn var þá á unglingsaldri.
Sigurjón notfærði sér að konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar og beitti hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburði sína og aðstöðumun, og traust hennar vegna stöðu hans gagnvart henni. Sigurjón var yfirmaður konunnar þegar hann framdi brotin.
Sigurjón misnotaði freklega þá aðstöðu sína að hún var honum háð í atvinnu sinni, að því er fram kemur í dóminum. Menn sem hann lét hafa mök við konuna eru ekki ákærðir.
Dómurinn hefði getað orðið þyngri ef ekki hefðu komið til óútskýrðar tafir á rannsókn málsins. Vegna alvarleika brotanna er refsingin ekki skilorðsbundin, segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Dómstóll götunnar
Dómstóll götunnar hafði áður sakfellt saklausan mann og svipt hann ærunni án dóms og laga enda hver maður saklaus uns sekt er sönnuð. Eðli málsins samkvæmt var þessi lífsreynsla mjög erfið fyrir hinn saklausa mann og hans aðstandendur, vini og fjölskyldu. Engar afsökunarbeiðnir hafa borist.