Aðvörun frá veðurfræðingi
Nú nálgast landið kröpp lægð úr suðri og með henni hvessir af austri í dag. Í kvöld er útlit fyrir storm eða rok S-lands og útlit er fyrir að veðrið verði einna verst allra syðst, en spár gera ráð fyrir um og jafnvel yfir 30 m/s í meðalvindi í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum frá kl. 18 til miðnættis. Þrátt fyrir að þetta séu þekktir rokstaðir er um að ræða óvenjumikla veðurhæð og er mikil hætta á foktjóni og skemmdum.
Fólk er því beðið um að fara með ítrustu gát, festa vel niður allt sem fokið getur og forðast að vera á bersvæði á þessum slóðum á meðan veðrið gengur yfir. Vegagerðin hefur gefið út að lokanir séu líklegar á milli Hvolsvallar og Víkur, á Skeiðarársandi og í Öræfasveit seinni partinn í dag og fram til morguns.
Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum, en appelsínugular viðvaranir eru í gildi um allt S-vert landið í dag frá kl. 16 og fram til hádegis á morgun, en gular viðvaranir eru einnig á flestum öðrum svæðum í nótt og til morguns.
(Veðurspá og horfur næstu dagar eru fyrir neðan aðvaranir) Spá gerð: 11.03.2019 06:47. Gildir til: 12.03.2019 00:00.
Suðurland – Austan og norðaustan stormur eða rok (Appelsínugult ástand)
Breiðafjörður – Norðaustan stormur (Gult ástand)
Vestfirðir – Norðaustan stormur (Gult ástand)
Strandir og Norðurland vestra – Austan stormur (Gult ástand)
Norðurland eystra – Norðaustan hríð (Gult ástand)
Austurland að Glettingi – Norðaustan hríð (Gult ástand)
Austfirðir – Norðaustan hríð (Gult ástand)
Suðausturland – Austan eða norðaustan stormur eða rok (Appelsínugult ástand)
Miðhálendið – Austan og norðaustan stormur eða rok (Appelsínugult ástand)
Veðurhorfur á landinu
Vaxandi austlæg átt og slydda eða snjókoma S-lands, en síðar rigning. Dálítil él A-ast, en annars yfirleitt þurrt. Austan og síðan norðaustan hvassviðri á sunnanverðu landinu síðdegis en 23-30 m/s undir Eyjafjöllum og einnig á Suðausturlandi í kvöld og nótt. Lengst af hægari vindur fyrir norðan, en austan og norðaustan 15-23 þar í nótt og snjókoma. Dregur smám saman úr vindi á morgun.
Snjókoma norðanlands, slydda með A-ströndinni og léttir til um landið SV-vert. Mun hægari vindur annað kvöld. Hiti 0 til 5 stig S-til, annars víða 0 til 6 stiga frost. Hlýnar heldur norðanlands á morgun.
Spá gerð: 11.03.2019 09:03. Gildir til: 13.03.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Hægt vaxandi suðaustanátt og úrkomulítið, 8-15 m/s seinni partinn og byrjar að rigna eða slydda um S- og V-vert landið. Hiti um og undir frostmarki, en upp í 4 stig með S-ströndinni.
Á fimmtudag:
Austlæg átt, 5-13 m/s. Slydda eða snjókoma vestanland, rigning með suðurströndinni en annars úrkomulítið. Frostlaust með suður- og vesturströndinni en annars vægt frost.
Á föstudag og laugardag:
Austan 8-15. Slydda eða rigning sunnalands en él norðantil. Frostlaust sunnanlands en annars vægt frost.
Á sunnudag:
Útlit fyrir breytilega átt, og él á víð og dreif um landið. Frostlaust sunnanlands en annars vægt frost.
Spá gerð: 11.03.2019 09:17. Gildir til: 18.03.2019 12:00.