Í fyrradag opnaðist ný gossprunga á milli þeirra sem opnuðust 5. apríl og á miðnætti þann 7. apríl sl. og rennur hraun frá nýju sprungunni niður í Geldingadali.
Áætlun sem gæti breyst án fyrirvara:
Sunnudagur:
Í dag verður gossvæðið vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá kl. 12 til kl. 24. Lokað verður inn á svæðið kl. 21. Rýming hefst kl. 23 og verður lokið fyrir miðnætti.
Veðurlýsing fyrir daginn:
Suðaustan og sunnan 5-10 m/s á gosstöðvunum og snjókoma með köflum. Hiti við frostmark. Áttin er þó suðvestlægari rétt ofan við jörð og búast má við gasmengun á norðanverðum Reykjanesskaga og á höfuðborgarsvæðinu. Sunnan 5-10 m/s og slydda eða rigning með morgninum, en suðaustan 8-13 eftir hádegi. Hiti 2 til 5 stig.
Gasmengunina ætti því að leggja yfir Vatnsleysuströnd í fyrstu, en seinnipartinn yfir svæðið frá Vogum að Reykjanesbæ og vestur að Höfnum. Snýst í austan og norðaustan 5-10 og styttir upp í kvöld, en mengunin berst þá í átt til Grindavíkur.
Þeir sem ætla sér inn á svæðið fyrir kl. 12 í dag hafi það í huga að takmarkað eftirlit viðbragðsaðila er á svæðinu. Gossvæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Þá hefur gönguleið reynst mörgum erfið. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum. Hættusvæði við gosstöðvarnar hefur verið merkt inn á kort sem hægt er að nálgast á Facebook síðu lögreglu og á vedur.is, heimasíðu Veðurstofu Íslands.
Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því útsett fyrir skaðlegum lofttegundum. Þeir sem klæða sig ekki vel hafa ekkert inn á svæðið að gera.
Búast má við gasmengun vegna eldgoss á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá Almannavörnum.
· Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.
· Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
· Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni
· Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.