Nýtt íslenskt fjártæknifélag, Verna, hefur starfsemi í dag og segir Friðrik Þór Snorrason, framkvæmdastjóri félagsins, í viðtali við Fréttablaðið í dag að félagið muni bjóða allt að 40% lægra verð á ökutækjatryggingum en gengur og gerist á íslenskum tryggingamarkaði. Þetta kemur jafnframt fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í morgun.
Þar kemur fram að öll þjónusta fari fram í gegnum app og viðskiptavinir geti sjálfir stýrt verðlagningu á tryggingunum.
Haft er eftir Friðrik Þór, sem er fyrrverandi forstjóri Reiknistofu bankanna, að hægt sé að áætla að 70 til 80% bifreiðaeigenda á Íslandi séu að greiða of há iðgjöld. Þessu ætli félagið að breyta.
,,Hæ! Við erum Verna – nýtt fjártæknifélag sem býður nýjung í bílatryggingum. Við ætlum vera breytingarafl á tryggingamarkaði með þróun snjalltrygginga sem draga úr áhættu í umferðinni og einfalda fólki lífið. Með appinu okkar stýrir þú verðinu og keyrir það niður með bættum akstri.
Við seljum þér ekki bara vernd heldur hjálpum þér að nota bílinn dags daglega með virðisaukandi þjónustu í gegnum Verna appið.“ Segir á vef félagsins