Það sem af er þessu ári eru frávísunarmál á landamærum Íslands á Keflavíkurflugvelli orðin 127. Frá árinu 2010 hefur fjöldi þessara mála á ársgrundvelli verið meiri í einungis þrjú skipti. Gera má ráð fyrir að það dragi aðeins úr fjölda þessara mála á þessu ári með hliðsjón af öflugum aðgerðum lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli undanfarin misseri. Vonandi reynast varnaðaráhrif aðgerða einhver.
Jákvæð umfjöllun fjölmiðla hjálpar til og vekur menn til umhugsunar um störf lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Á flugvellinum er reynt að hafa hendur í hári þeirra sem hingað eru komnir til að brjóta af sér. Selja og dreifa fíkniefnum eða brjóta landslög með öðrum hætti. Svört atvinnustarfsemi er þar ekki undanskilin.
Í gær var maður á þrítugsaldri handtekinn á Keflavíkurflugvelli með kókaín í farangri sínum en hann kom með flugi frá Spáni. Sama dag var maður á 19. aldursári handtekinn af sama tilefni við komu til landsins frá Frakklandi. Í farangri hans var falið kókaín.
Eftir daginn í dag verða 25 menn í gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þessir gæsluvarðhaldsfangar eiga ríkisfang í eftirtöldum löndum: Palestínu, Sýrlandi, Spáni, Gíneu, Litháen, Nígeríu, Brasilíu, Spáni, Grikklandi, Alsír, Póllandi, Þýskalandi, Slóvakíu, Frakklandi og Lettlandi. Flestir sæta gæsluvarðhaldi vegna innflutnings á ólöglegum fíkniefnum.
Álag vegna þessa á starfsemi lögreglunnar á Suðurnesjum er mikið.
Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli er öflug í sinni greiningarvinnu og hefur á að skipa færum tollvörðum. Í samstarfi lögreglu og tollgæslu er árangur í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi eftirtektarverður.
Frávísanir á landamærum snúa ekki að þeim sem handteknir eru á flugvellinum við það að reyna að koma inn í landið ólöglegum fíkniefnum. Þeir eru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald og í framhaldi af því dæmdir til fangelsisvistar.
Í minnisblaði, dags. 13. mars 2024, sem sent var dómsmálaráðuneytinu var þeirri tillögu komið á framfæri við ráðuneytið að ráðnir verði til embættisins fangaverðir til að annast fangavörslu í fangahúsi, yfirsetu yfir sakborningum sem flytja inn fíkniefni innvortis og flutning sakborninga til og frá dómi. Í dag sinna lögreglumenn þessum verkefnum. Vert er að geta þess að það getur tekið daga, og vikur í undantekningartilfellum, að skila af sér fíkniefnum úr meltingarvegi á meðan sakborningur er vistaður í fangaklefa á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum þarf að geta nýtt lögreglumenn í löggæsluverkefni en ekki í fangavörslu og fangaflutninga. Lausn er ekki í sjónmáli.