Tilkynningum um innbrot í ökutæki fjölgar
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir aprílmánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Skráð voru 667 hegningarlagabrot hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í apríl. Hegningarlagabrotum fækkaði á milli mánaða og fækkaði þeim einnig miðað við meðalfjölda síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan.
Tilkynningum um þjófnaði fækkaði einnig miðað við meðalfjölda síðust 12 mánuði á undan. Á milli mánaða fjölgaði þó tilkynningum um allar tegundir þjófnaða nema þá sem flokkast sem annars konar þjófnaðir.
Mest fjölgaði tilkynningum um þjófnaði á farsímum og reiðhjólum á milli mánaða. Nú þegar sólin fer hækkandi, sumarið nálgast og reiðhjólum fjölgar á götum borgarinnar er vert að minna eigendur reiðhjóla á að vera á varðbergi og ganga tryggilega frá reiðhjólum sínum.
Alls bárust 72 tilkynningar um innbrot, sem er smávægileg fjölgun á milli mánaða, en tilkynningum fækkaði þó miðað við síðustu sex mánuði á undan. Tilkynningum um innbrot í ökutæki fjölgaði talsvert á milli mánaða.
Mikilvægt er að læsa ökutækjum þannig að enginn geti farið óhindrað inn í þau og gæta þess að skilja aldrei eftir verðmæti í ökutækjum þannig að þau séu sýnileg. Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði töluvert miðaða við fyrri mánuði. Alls voru skráð 1.645 umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu (af hraðamyndavélar undanskildum). Sektir fyrir umferðarlagabrot hækkuðu um mánaðamótin, t.a.m. hækkaði sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar úr 5.000 kr. í 40.000 kr. og sektin fyrir hvert nagladekk hækkaði úr 5.000 í 20.000 kr.