Allir stjórnarliðar greiddu atkvæði gegn greiðslum til öryrkja
Nú stendur yfir á Alþingi þriðja umræða um enn ein fjáraukalögin, viðbrögð stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa Covid-19. Við aðra umræðu voru breytingatillögur minnihluta allar felldar, tillögur þar sem reynt var að leiðrétta hlut öryrkja.
Fyrir þinginu lágu tvær breytingatillögur. Ein frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem kvað á um einskiptisgreiðslu til öryrkja og ellilífeyrisþega, upp á 100 þúsund krónur, auk annars. Þessi tillaga var felld með 31 atkvæði gegn 19. Allir viðstaddir stjórnarliðar greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Björn Leví Gunnarsson flutti mun viðameiri breytingartillögu, þar sem gert var ráð fyrir leiðréttingu örorkulífeyris, til samræmis við uppreiknaðan mun á launavísitölu og hækkun lífeyris samkvæmt vísitölu neysluverðs.. Kostnaður við þá tillögu var reiknaður um 23 milljarðar.
Skemmst er frá því að segja að sú tillaga var einnig felld, en nú með atbeina þingmanna Viðreisnar, auk stjórnarþingmanna. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni, allir viðstaddir þingmenn Framsóknarflokks, en einn var fjarstaddur. Einnig allir þingmenn Vinstri grænna.
Að veita svo 25 milljónum til hjálparsamtaka ber vott um uppgjöf, að þingmenn reyna frekar að fela vandann en leysa. Það er ekki hlutverk hjálparsamtaka að uppfylla stjórnarskrárbundna skyldu ríkisins, að tryggja þegnum sínum framfærslu sem dugir til mannsæmandi lífs.
Ríkisstjórnin sýnir hér enn í verki að ekki er kominn tími á efndir og að enn þurfi fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu.