Strandveiðitímabilið byrjaði í vikunni og því miður fá strandveiðimenn aðeins 48 hálfa daga sem er upp á 14 klukkustundir hver, þ.e. 24 daga í raun. Það er í raun fáránlegt, því það tekur tíma að sigla á miðin og svo að fiska þann afla sem þeir mega koma með að landi á dag.

Grátkór SFS (LÍÚ) færi fyrst að grenja úr sér augun ef stórútgerðin þyrfti að gera út samkvæmt skeiðklukku eins og smábátaútgerðin þarf að búa við, en stórútgerðin hefur búið við ofdekur afturhaldsafla í pólitíkinni undanfarna áratugi. Þeirra sömu og nú mótmæla veiðigjaldinu.
Fella niður 48 daga og gefa strandveiðar alveg frjálsar
Ríkisstjórnin ætti að endurskoða þetta dagakerfi og fella niður þessa 48 daga og gefa strandveiðar alveg frjálsar frá sumardeginum fyrsta og til og með fyrsta vetrardegi. Brælur hamla því að einhver ofveiði verði en strandveiðar eru umhverfisvænustu veiðar í heimi. Á meðan togarar hefla sjávarbotninn eins og jarðýtur 365 daga á ári og í áratugi. Alvöru fiskveiðistjórnun væri framkvæmd með því að fækka togurum um helming og loka á veiðar þeirra innan 50 til 70 sjómílna. Þá væri verið að vernda fiskinn en ekki kvóta-Elítuna eins og mest áhersla hefur verið lögð á í 40 ár.
Stórútgerðin á Íslandi ríkisstyrkt í 40 ár
Gunnar Smári Egilsson ræddi við Kjartan Sveinsson, formann Félags strandveiðimanna, um gildi strandveiðanna og verðmæti fyrir þjóðarbúið á dögunum. Mér þótti það mjög áhugavert viðtal þar sem Kjartan benti á að eini sjávarútvegur í heimi sem sé ríkisstyrktur, er stórútgerðin á Íslandi sem hefur ekki greitt nægt veiðigjald til þjóðarinnar í 40 ár til þess að standa undir kostnaði við SFS.
20% hærra verð fyrir krókafisk og skilar þjóðinni meiri gjaldeyri
Þá upplýsti hann um að verslanir í Evrópu selji fisk sem sé veiddur á króka eins og gert er á strandveiðum sé verðlagður 20% hærra en fiskur frá stórútgerðinni. Þá kom einnig fram að bankarnir láni ekki krónu til bátakaupa til strandveiða og má þá segja að bankar allra landsmanna standi með SFS (LÍÚ) og gegn umhverfisvænustu veiðum í heimi. Það þarf augljóslega að skipta um fólk í bönkunum.
Bankakerfið er bara fyrir Elítuna – Ríkistjórnin þarf að reka bankaráðin
Það er undarlegt að þegar menn ætla sér loksins að nýta sér frelsi einstaklingsins og kaupa sér atvinnutæki til þess, þá standi bankakerfið á Íslandi gegn því. Ef sá hinn sami ætlaði hins vega að kaupa sér hjólhýsi eða bíldruslu sem gefur engar tekju og er gjaldeyrissóun, að þá fær hann 100% lán.
Ríkistjórnin þarf að reka bankaráðin og ráða þar inn fólk með fullu viti