Fátæktarstefnan misbýður okkur
„Fátæktarstefna ríkisstjórnarinnar er að sliga hluta þjóðarinnar. Sannast að segja er fatlað fólk og langveikt fólk ekki bara í afar slæmri stöðu nú, heldur í verstu stöðu í manna minnum. Framfærsla þess er að stærstum hluta komin langt undir öll mörk. Ef gólfið væri lágmarkslaun þá er bókstaflega verið að grafa þennan þjóðfélagshóp lifandi undir því. Örorkulífeyrisþegar sem eru rúm 5% þjóðarinnar, eru mjög margir í dag með mikið lægri framfærslu en fólk á atvinnuleysisbótum og með talsvert lægri framfærslu en ellilífeyrisþegar, eins öfugsnúið og það er.“ Þetta segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands í samtali við vef ÖBÍ.
Samráðs- og aðgerðarleysi
Alþingi samþykkti á föstudaginn ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Öryrkjabandalagið hefur áður gagnrýnt áætlunina með skýrum rökum. Bandalagið sendi Alþingi umsögn um plaggið, en athygli vekur að ekki var kallað eftir umsögn frá bandalaginu, enda þótt það sé í forsvari fyrir hóp sem nemur hátt í einn tíunda íslensku þjóðarinnar. Félagar í aðildarfélögum ÖBÍ eru um 29 þúsund talsins.
Í umsögn Öryrkjabandalagsins eru gerðar fjölmargar tillögur um breytingar til batnaðar frá þeirri áætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á föstudaginn. Ekki er að sjá að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi lagt hlustir við eina einustu þeirra.
„Fjármálaáætlunin gefur ekki tilefni til bjartsýni. Stjórnvöld gera ekki ráð fyrir nægjanlegu fjármagni inn í málaflokkinn og því sem er allra brýnast í dag, sem er að hækka framfærsluna verulega umfram prósentuhækkanir launa. Fatlað fólk og langveikt er því dæmt í fátækt áfram. Fólk einfaldlega getur þetta ekki, og það að vera veikur eða fatlaður og hafa endalausar áhyggjur af afkomunni vitandi að framfærslan dugar alls ekki, er hreint ekki heilsubætandi,“ segir Þuríður Harpa.
Útrýma þarf skerðingunni strax
Hún bendir á að aðalfundur ÖBÍ 2017 hafi sent frá sér ályktun um 390.000 kr. fyrir skatt, sem væri í raun lágmarksframfærsla miðað við verðlag á Íslandi í dag. „Við erum að tala um fólk sem þarf að borga lyf, læknisþjónustu, endurhæfingu o.s.frv, en þarf líka eins og annað fólk, að halda heimili og sjá fyrir börnum.“
Öryrkjabandalag Ísland hefur lagt til og barist hart fyrir því að hin ósanngjarna krónu-á-móti-krónu skerðing verði afnumin. Sú aðgerð er sannarlega nefnd í ríkisfjármálaáætlun, en við hefðum viljað sjá þessa skerðingu tekna út strax, en ekki hengda á niðurstöður á heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Þó liggur fyrir að afnám þessa kerfisbundna ofbeldis nýtur stuðnings allra flokka á Alþingi.
Litlar hækkanir gufa upp
Þuríður Harpa bendir jafnframt á að ekkert hefur gerst mjög lengi. „Að minnsta kosti áratugur er liðinn síðan breyta átti almannatryggingakerfinu, nefndir hafa verið settar á laggirnar og unnið að breyttu almannatryggingakerfi árum saman, á meðan eru öryrkjar sveltir sem er ódýrt fyrir ríkisvaldið, en samt aðeins til mjög skamms tíma. Staðreyndin er sú að frítekjumark hefur ekki hækkað um eina krónu frá árinu 2009, settar hafa verið á grimmar skerðingar sem eiga sér ekki fordæmi í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og smánarlágur örorkulífeyrir er skattlagður sem aldrei fyrr. Þessi þjóðfélagshópur býr við það að fjármálaráðherra hendir inn í málaflokkinn prósentuhækkunum sem standast engan samanburð við aðra þróun eins og til dæmis launaþróun. Fatlað fólk situr því uppi með verðamætarýrnun þar sem framfærsla þess hefur rýrnað stöðugt síðasta áratug. Það er stjórnun ríkisfjármála sem gerir það að verkum að við fáum ekki hækkun á framfærslu. Við erum látin trúa því að við séum að fá hækkanir en uppgötvum svo að hækkunin er tekin til baka annarstaðar í kerfinu eða hreinlega gufar upp á móti hækkunum á öllu sem við þurfum til að hafa í okkur og á,“ segir Þuríður Harpa.
Þörf á jákvæðum aðgerðum
„Við verðum að sjá jákvæðar aðgerðir stjórnvalda og miðað við allan þann tíma sem öryrkjar hafa setið í biðsalnum, blóðmjólkaðir með sköttum og skerðingum, ættu að vera til aurar til að bæta kjör örorkulífeyrisþega, því þetta eru ekki fjármunir í stóra samhenginu og með tilliti til umræðu sem er í gangi í dag um t.d. lækkun veiðigjalda þar sem auðvelt virtist vera að taka ákvörðun með einu pennastriki, vegna „óvæntrar neyðar“ þeirra ríkustu, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Þuríður Harpa.
Í umsögn bandalagsins er jafnframt bent á að 1% lækkun á tekjuskatti er ekki aðgerð sem leiðir til jöfnunar. Nær væri að bæta verulega í persónuafsláttinn. Það kæmi sannarlega hinum tekjulægri til góða, en öryrkjar eru stærstur hópur þeirra allra tekjulægstu í samfélaginu.