Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsingu Goðafoss í Skjálfandafljóti í dag. Fossinn er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Norðurlands.
Meginmarkmið með verndun svæðisins er að vernda sérstakar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan og er hann friðlýstur sem náttúruvætti. Friðlýsingin felur m.a. í sér að náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn er viðhaldið sökum fegurðar hans og sérkenna og útivistargildis svæðisins.
„Í dag friðlýstum við eina helstu náttúruperlu landsins,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með friðlýsingunni verður komið á skipulegri umsjón með svæðinu með landvörslu og þar með einnig fræðslu og eftirliti. Friðlýsing Goðafoss er afar ánægjulegt skref í náttúruvernd á Íslandi og tryggir að komandi kynslóðir geti notið hans um ókomna tíð.“
Þjóðsaga segir að Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði hafi varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn i kjölfar þess að honum hafi verið falið það hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna og hann hafi tekið upp nýjan sið. Af þessu á Goðafoss að hafa dregið nafn sitt.
Friðlýsingin var undirrituð að viðstöddum sveitarstjórnarmönnum í Þingeyjarsveit og landeigendum, fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, heimafólki og öðrum gestum á svæðinu. Við athöfnina lék norðlenski blásarakvintettinn Norðangarri og að henni lokinni var boðið til kaffisamsætis á Fosshóli.
Myndir: Auðunn Níelsson – Frá undirritun friðlýsingar Goðafoss í dag
Umræða