Sjálfbærni er hugtak sem mikið er í umræðunni þessa dagana og er það í fullu samræmi við sjálfbærnimarkmið (eða heimsmarkmið) Sameinuðu þjóðanna fyrir allar þjóðir heims fyrir árið 2030. Flestum er orðið ljóst að betur má ef duga skal þegar litið er til sjálfbærrar nýtingar auðlinda jarðar, svo tryggja megi möguleika framtíðarkynslóða til að eiga þess kost að nýta þessar auðlindir sér til næringar og lífs. Eitt af því sem þarf að vinna að er endurhugsun fæðukerfisins, þar sem matvælatækni og matvælavísindi eru lykill í því að finna leiðir til að nýta betur, á sjálfbæran hátt, vannýttar en ríkulegar auðlindir jarðarinnar.
Um þetta snýst Evrópuverkefni sem Matís stýrir og starfar að í samstarfi við framsækin fyrirtæki, stofnanir og háskóla í Evrópu. Verkefnið miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um og jákvæðra viðhorfa til nýrra sjálfbærra fæðuleiða og það hvernig tækni og vísindi eru nauðsynlegur þáttur þar. Verkefnið heitir Future Kitchen og er eitt þeirra verkefna sem Matís stýrir og starfar að, sem styrkt af EIT Food, undirstofnun Evrópusambandsins.
Í verkefninu er upplýsingum um fæðuleiðir, sem nýttar eru á sjálfbæran hátt, miðlað í myndbandaformi. Þar er skemmtimennt (e. infotainment) notuð til að koma upplýsingunum til ungs fólks, helsta markhóps verkefnisins, á áhugaverðan og einnig skemmtilegan hátt, m.a. með notkun sýndarveruleikamyndbanda.
Á þessu ári hefur þegar verið gefið út Future Kitchen sýndarveruleikamyndband sem sýnir sjálfbæra ræktun smáþörunga í sérhönnuðu ræktunarkerfi innanhúss í fyrirtækinu Algaennovation á Íslandi, en fyrirtækið nýtir jarðvarma til ræktunarinnar. Annað sýndarveruleikamyndband, sem væntanlegt er fljótlega, sýnir ræktun skordýra til fæðu, en svissneska fyrirtækið Essento gerir skordýraborgara sem grillaðir eru úti við í góðra vina hópi í myndbandinu. Bæði skordýr og smáþörungar eru næringarrík fæða og ríkuleg auðlind á jörðu. Talið er að milli 30.000 – 1 milljón tegundir smáþörunga fyrirfinnist á jörðinni, en einungis innan við 10 tegundir eru nýttar til fæðu eða í fæðubótarefni í dag. Þá má geta þess að auk þess að vera „vítamínbomba“ eru smáþörungar hin raunverulega uppspretta hinna mikilvægu Omega3 fitusýra, en fiskur fær þessar nauðsynlegu fitusýrur úr smáþörungunum.
Sýndarveruleikamyndböndin má horfa á í þar til gerðum sýndarveruleikagleraugum, en einnig á tvívíðum skjá með því að hreyfa bendilinn um skjáinn (eða hreyfa skjásíma/spjaldtölvu til og frá). Myndböndin eru aðgengileg á youtube síðu Matís og á FoodUnfolded.com.
https://www.foodunfolded.com/videos