Matvælastofnun hafa borist upplýsingar um upprunagreiningu Hafrannsóknastofnunar á meintum eldislöxum sem veiðst hafa í Patreksfirði (6), Örlygshöfn (2), Sunndalsá (6), Mjólká (1), Laugardalsá (1), Ísafjarðará (1), Selá í Ísafjarðardjúpi (2), Miðfjarðará (1), Hópinu (1), Víðidalsá (1), Vatnsdalsá (3), Laxá í Dölum (1) og Staðarhólsá/Hvolsá (1).
Alls voru 34 laxar sendir til greiningar og reyndust sjö þeirra sem veiddust í Mjólká vera villtir. Af hinum 27 var einn eldislax sem ekki var hægt að rekja en hinir 26 voru eldislaxar sem var hægt að rekja til sex hænga sem voru notaðir til framleiðslu á seiðum sem sett voru út á eldissvæði Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði haustið 2021. Tveir af þessum sex hængum voru einnig notaðir til framleiðslu á seiðum sem sett voru út á eldissvæði Arnarlax við Tjaldanes í Arnarfirði haustið 2021.
Arctic Sea Farm tilkynnti 20. ágúst sl. að tvö göt hefðu fundist á 2.5 metra dýpi í kví nr. 8 á eldissvæði fyrirtækisins við Kvígindisdal í Patreksfirði og óskaði Matvælastofnun eftir því að slátrun hæfist samstundis í kví nr. 8. Slátruninni lauk 29. ágúst sl. og er áætlað að slátrun á eldissvæðinu öllu verði lokið um miðjan september.
Að sögn forsvarsmanna Arctic Sea Farm er möguleg orsök gatanna sú að starfsmenn fyrirtækisins höfðu fært fóðurdreifara í kvínni að kvíarbrún og hafa tvö lóð sem héngu neðan á fóðurdreifaranum að öllum líkindum nuddast við nótina og myndað götin. Búnaðurinn var á þeirri hlið kvíarinnar þar sem götin mynduðust á tímabilinu 8. – 20. ágúst síðastliðinn, mögulegt er að götin hafi myndast á því tímabili.
Jafnframt kom í ljós við rannsókn málsins að neðansjávareftirlit fyrirtækisins við kví nr. 8 var ekki framkvæmt frá miðjum maí sl. og þar til götin uppgötvuðust 20. ágúst sl. Aðrir netapokar eldissvæðisins voru skoðaðir með reglubundnum hætti.
Til Hafrannsóknarstofnunar eru enn að berast laxar sem sendir verða til erfðagreiningar. Matvælastofnun veitir frekari upplýsingar þegar niðurstöður liggja fyrir varðandi erfðagreiningu laxa og uppruna þeirra.