Ódýrasti fiskurinn í Hafnafirði
Þrjár ódýrustu fiskibúðirnar eru í Hafnafirði samkvæmt nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Litla fiskbúðin Helluhrauni var oftast með lægsta verðið, í 15 tilvikum af 30 en Fylgifiskar Borgartúni var oftast með hæsta verðið eða í 8 tilvikum. Oftast var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni. Á 10 af þeim 30 vörum sem kannaðar voru reyndist 40-60% munur á hæsta og lægsta verði og í 15 tilfellum var yfir 60% verðmunur. Mesti verðmunurinn var á laxi í sneiðum, 135% eða 2.238 kr. munur á kílóinu.
Fjórar verslanir neituðu fulltrúum verðlagseftirlitsins um þátttöku í könnuninni. Þetta voru Fiskbúðin Hafberg, Fiskbúð Fúsa, Melabúðin og Fiskbúðin Vegamót.
Í helmingi tilfella yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri yfir 60% en í 15 tilfellum af 30 var munurinn yfir 60%, þarf af í 5 tilfellum yfir 80%. Í 10 tilfellum var munurinn á hæsta og lægsta verði 40-60% en einungis í 5 tiflellum undir 40%. Mestur verðmunur var á laxi í sneiðum en hæsta verðið var 135% hærra en það lægsta. Hæsta verðið var í Fylgifiskum, 3.900 kr. en það lægsta í Fjarðarkaupum, 1.662 kr. kg.
Næst mestur var munurinn á kílóverðinu af frosnum fiskibollum, 124% sem voru dýrastar í Gallerý Fisk, 1990 kr. en ódýrastar í Fisk Kompaní á Akureyri, 890 kr. kg. Einnig var mikill verðmunur á ýsuhakki sem var dýrast í Hafinu, 1.990 kr. en ódýrast í Litlu Fiskbúðinni Hafnafirði, 990 kr. kg. og munar því 1.000 kr. á kílóverðinu eða 110%.
Tafla með öllum verðum í fiskbúðum
Fylgifiskar, Hafið, Fiskbúðin Mos og Gallerý Fiskur með hæstu verðin
Taflan sýnir með litakóðun hvaða verslanir eru með hæstu verðin og hvaða verslanir með lægstu. Hæstu verðin eru eldrauð en þau lægstu dökkgræn og má segja að þetta sé einskonar hitarit. Hitaritið sýnir að Fylgifiskar, Hafið, Fiskbúðin Mos og Gallerý Fiskur eru dýrustu búðirnar en Fylgifiskar var oftast með hæsta verðið eða í 8 tilfellum af 30. Hinar þrjár búðirnar áttu hæsta verðið í 6 tilfellum hver.
Hitaritið sýnir að fiskibúðir í Hafnafirði koma í heildina litið vel út úr könnuninni. Þær fiskibúðir sem um ræðir eru Litla fiskbúðin Helluhrauni sem var oftast með lægsta verðið eða í 15 tilvikum af 30, Fiskbúðin Trönuhrauni sem var með lægsta verðið í 7 tilvikum og Fjarðarkaup í 4 tilvikum. Hitaritið hjálpar einnig til við að staðsetja verslanir í verði sem eru hvorki með lægstu né hæstu verðin.
Fiskbúðin Hafberg, Fiskbúð Fúsa, Melabúðin og Fiskbúðin Vegamót vilja ekki upplýsa um verð
Könnunin var gerð á fiski og fiskafurðum í 19 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð miðvikudaginn 9. október 2019. Kannað var verð á 30 algengum tegundum fiskafurða. Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Fiskbúðinni Sundlaugarvegi, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Fiskikónginum Sogavegi, Litlu fiskbúðinni Helluhrauni, Hafinu fiskverslun í Hæðarsmára, Fiskbúð Hólmgeirs, Gallerý fiski Nethyl, Fiskbúð Sjárvarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos, Fisk kompaní Akureyri, fiskborðinu í Hagkaupum Kringlunni, Fiskborðinu Fjarðarkaupum, Fiskverslun Hveragerðis, Fiskbúð Suðurlands Selfossi og Fylgifiskum Borgartúni.
Fiskbúðin Hafberg, Fiskbúð Fúsa, Melabúðin og Fiskbúðin Vegamót neituðu þátttöku í könnuninni og heimiluðu fulltrúum verðlagseftirlitsins ekki að skrá niður verð í verslunum sínum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.