Sigurður Þ. Ragnarsson fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar lagði til á bæjarstjórnarfundi að Hafnarfjarðarbær hafi frumkvæði að því að leita til eigenda einkarekinna heilsugæslustöðva með það að markmiði að komið verði á fót slíkri heilsugæslustöð í bænum. Fjarðarfréttir vekja athygli á málinu og fleiri tillögum varðandi rekstur bæjarins en starfsemi heilsugæslunnar virðist vera í miklum ólestri, þar sem íbúar leita þjónustunnar utan bæjarins.
Segir Sigurður að biðtími eftir tíma hjá heilsugæslulækni í Hafnarfirði sé alltof langur. „Biðtími á einkareknum heilsugæslustöðvum er mun styttri og boðleiðir markvissari.
Vera kann að bærinn þurfi að liðka fyrir slíku með öflun húsnæðis eða afsláttar af fasteignaskatti til að byrja með. Raunveruleikinn er sú að fjölmargir Hafnfirðingar leita nú eftir heilsugæsluþjónustu utan sveitarfélagsins,“ segir í greinargaerð með tillögunni og var henni vísað til bæjarráðs til efnislegrar umræðu.
Þá leggur Miðflokkurinn til að sett verði ákveðin fjárhæð í að efla kennslu eldriborgara í snjallvæðingu með snjalltölvum. Slíkt vinni gegn gegn félagslegri einangrun eldri borgara og geti í mörgum tilvikum aukið lífsgleði þeirra. Málinu var vísað til fjölskylduráðs til afgreiðslu en hér má sjá fleiri mál í frétt Fjarðarfrétta um fleiri tillögur Miðflokssins.