,,Jólalagið mitt sem ég var að gefa út, Stjörnur á himni. Er á alvarlegu nótunum, en svoleiðis er jú lífið stundum.“ Segir Jónína þegar Fréttatíminn heyrði í henni við útgáfu lagsins. Hægt er að hlusta á jólalagið hér að neðan.
Stjörnur á himni – var tekið upp í TOSKA, Tónlistarskóla Akraness, í nóvember 2019. Lag og texti – Jónína Björg Magnúsdóttir
Söngur og gítar – Jónína Björg Magnúsdóttir. Slagverk – Guðjón Jósef Baldursson. Stjórn upptöku – Birgir Þórisson
Myndband – Ársæll Rafn Erlingsson. Ljósmyndir Jóhanna Kristín Þorsteinsdóttir.
En Jónína er þekkt fyrir fjölbreytta tónlist sína og hefur m.a. flutt lagið ,,Morgunljós móðgun“ ásamt Bubba Morthens sem er hér að neðan, en þar fjallar textinn um verkalýðsbaráttuna sem hefur verið hörð á Akranesi og stutt er síðan fjöldauppsagnir voru þar, þegar HB Granda var lokað.
Um það leiti gaf Jónína út lagið ,,Sveiattan“ þar sem hún syngur um óréttlætið og lágu launin í fiskvinnslunni og flaug það lag inn á vinsældalista Rásar tvö og hægt er að hlusta á það, einnig hér að neðan. En hér er hið nýja Jólalag: Stjörnur á himni
Eftir að lag Jónínu, ,,Sveiattan“ fór inn á Vinsældalista Rásar 2, var hún hvött til að hafa samband við Bubba Morthens og byðja hann um að syngja með sér lag. ,,Svar hans var einfalt: „Hvert á ég að mæta og hvenær?“ Sagði Jónína í viðtali við Rás 2. Lagið, sem heitir „Morgunljós móðgun“, var tekið upp í Stúdíó Gott hljóð í Borgarnesi og var það frumflutt í Popplandi á Rás 2.
Jónína á textann en hún segir að þau Bubbi hafi samið lagið í sameiningu.
Notar tónlistarhæfileikana í baráttunni
RÚV spjallaði við Jónínu og flutti eftirfarandi frétt, þegar lag hennar ,,Sveiattan“ kom út:
Þótt allt stefni í kjaradeilu og verkfall er létt yfir starfsfólki HB Granda í frystihúsinu á Akranesi. Jónína Björg Magnúsdóttir situr við línuna og snyrtir fiskflök, en hún kann fleira en það. Hún er nefnilega liðtækur textasmiður og söngkona, og notar hæfileika sína í baráttunni.
Skefur ekki utan af því
Kunningi Jónínu gerði myndbandið við Sveiattan og Bragi Valdimar, Baggalútur lagði til lagið og undirleikinn, verkakonunum að kostnaðarlausu, og Verkalýðsfélag Akraness styrkti Jónínu um 40.000 krónur fyrir tíma í hljóðveri. Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, fær líka hlýja kveðju í textanum, en þau Jónína ólust upp í sömu götu á Skaganum. Jónína er ekkert að skafa utan af því í textanum – hann er klúr á köflum – en hún segir nauðsynlegt að ganga fram af fólki.“ Sagði í frétt RÚV.